133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

sjófuglarannsóknir og breytingar á náttúrufari.

200. mál
[15:04]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Hv. þm. Mörður Árnason spyr mig nokkurra spurninga sem lúta að sjófuglarannsóknum, m.a. um skýringar á bágu ástandi toppskarfs í Breiðafirði, um tengsl loftslagsbreytinga við breytingar á stofnum sjófugla og síðan um samstarf Náttúrufræðistofnunar Íslands, Hafrannsóknastofnunar og Háskóla Íslands um sjófuglarannsóknir.

Því er til að svara að samstarfsverkefni þessara aðila hófst formlega árið 2005 og snýst það um endurmat á fjölda bjargfugla á Íslandi. Sumarið 2006 hófust samstarfsaðilar handa við að endurtaka bjargfuglatalningu á landsvísu sem fram fór 1979 og aftur 1984 til 1986. Gert er ráð fyrir að verkefnið taki þrjú ár, frá árinu 2006 að telja.

Það var unnið við myndatökur úr lofti og söfnun upplýsinga af jörðu niðri í júní. Verkið hefur að mestu gengið samkvæmt áætlun samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað en veður hefur hamlað gagnaöflun á tveimur stöðum.

Tilgangur verkefnisins er að fá fram nýjar heildartölur yfir varpfugla í íslenskum fuglabjörgum sem yrði grunnpunktur í stóraukinni vöktun sjófugla á lykilstöðum.

Hvað varðar einstaka stofna einstakra tegunda þá er því til að svara að athuganir á kríum sem hafa farið fram eru því miður hvorki nógu víðtækar né reglubundnar til að hægt sé með vissu að segja til um ástand stofnsins. Kríuvarpið, eins og kunnugt er, hefur gengið afar illa undanfarin ár og t.d. er nánast alger viðkomubrestur á vesturhluta landsins nú í sumar, frá Miðsuðurlandi, vestur og norður um í Húnaflóa. Kríur skiluðu sér seint og illa í varp og lítið af ungum virðist hafa komist upp. En á austanverðu landinu virðist varpið hafa verið með eðlilegum hætti. En reglubundnar talningar hafa fyrst og fremst farið fram í grennd við Reykjavík, í Flatey og í ár hófst síðan vöktun á nokkrum vörpum á Snæfellsnesi.

Stuttnefjunni hefur stöðugt verið að fækka síðastliðin 20 ár, um 7% á ári. En ýmislegt bendir til að fækkunin hafi staðið yfir mun lengur. Stofnar langvíu og álku stóðu í stað en fjölgaði lítillega fram undir síðustu aldamót. Talningar 2005 sýna fækkun sem of snemmt er að túlka sem varanlega og gæti stafað af minni viðvist eða afrækslu varps vegna fæðubrests.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um toppskarfinn í Breiðafirði þá er því til að svara að honum hefur fækkað umtalsvert síðasta áratug eða svo eftir fyrri stofnaukningu á árunum 1975 til 1994 og virðist fækkunin á þeim tímabilum vera mun meiri en fjölgunin. Samdráttur í stofninum virðist vera vegna þess að sandsíli sem er meginfæða toppskarfa hefur horfið að umtalsverðu leyti. Aukinn sjávarhiti vegna loftslagsbreytinga virðist sennilegasta ástæðan fyrir breytingum á lífríki sjávar.

Slæmt ástand annarra sjófuglastofna gefur líklega til kynna að önnur og víðtækari áhrif séu að verki. Sennilegasta skýringin er loftslagsbreytingar en meðalsjávarhiti í Breiðafirði hefur hækkað um tvær gráður á undanförnum tíu til tólf árum. Hrun hörpudisksstofnsins í Breiðafirði, samhliða aukinni tíðni sjúkdóma, hefur verið tengdur hækkandi sjávarhita og ekki er ólíklegt að hækkað hitastig hafi einnig haft áhrif á aðra lífríkisþætti sjávar en því miður eru rannsóknir á samspili sjófuglastofna og umhverfisþátta af skornum skammti.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um tengsl við loftslagsbreytingar og vísar til helstu grannlanda okkar. En breytingar á fjölda og varpafkomu sjófugla í grannlöndum okkar, einkum í Norðursjó, eru vel þekktar og hefur mörgum stofnum þar hrakað á undanförnum árum. Margir hafa velt fyrir sér tengslum hækkandi hitastigs og versnandi afkomu ýmissa tegunda sjófugla en fleiri hafa haft áhyggjur af vaxandi veiðum á uppsjávarfiskum, einkum sandsílis til bræðslu.

Sjófuglastofnar í Norður-Noregi, bæði lundi og stuttnefja, sem hrundu í byrjun 9. áratugar síðustu aldar í kjölfar stóraukinna fiskveiða í Barentshafi, hafa rétt nokkuð út kútnum á síðustu árum.

Tengsl hitastigs og afkomu sjófugla eru óljós og í besta falli flókin enda líklegt að sjávarhiti hafi fremur bein áhrif á fæðuframboð fyrir fugla. Það getur verið erfitt að tengja dýr sem lifa á nokkrum fæðutegundum á mismunandi þrepum fæðuvefsins við umhverfisbreytingar sem hafa neikvæð áhrif á eina tegund en jákvæð áhrif á aðra tegund.