133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

rannsóknir á sandsíli.

201. mál
[15:24]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langar í upphafi að vekja athygli á því að við ræddum þetta mál í fyrirspurnatíma fyrir ekki löngu síðan, við hæstv. sjávarútvegsráðherra, þ.e. um sandsílastofninn.

Mig langaði aðeins að halda áfram með þær fullyrðingar eða kenningar sem við höfum haldið á lofti, ég og hv. þm. Sigurjón Þórðarson. Ástæðan fyrir því að sandsílið er svo veikt núna er fyrst og fremst sterkur ýsustofn. Það sem gerðist var að alls staðar í Norður-Atlantshafi komu fram gríðarsterkir árgangar af ýsu á árunum í kringum og upp úr 2000. Þetta gerðist við Ísland, í Barentshafi, í Norðursjó, við Færeyjar og líka við austurströnd Kanada.

Við vitum í raun ekki hvað ræður þessu. En eitthvað í náttúrunni gerir það að verkum að skyndilega verður sprenging í ýsustofninum alls staðar, nánast á sama tíma. Það er merkilegt en það er þetta sem gerist.

Ýsan fer yfir, étur upp sandsíli, kemur í veg fyrir nýliðun, étur upp litlu sílin og þannig hrynur sandsílastofninn. Þessu ástandi linnir ekki fyrr en ýsustofninn fer að minnka á nýjan leik. Ég spái því.