133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

jafnræði fiskvinnslu í landi og á sjó.

257. mál
[15:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég beindi fyrr í umræðunni einföldum spurningum til hæstv. sjávarútvegsráðherra um hvað hann hefði gert til að framfylgja þessu áliti Samkeppnisstofnunar og hvaða gögn lægju fyrir. Svarið var einfalt, það var: Hann hefur ekkert gert. Sjávarútvegsráðuneytið hefur ekkert gert. Það liggja engin gögn fyrir.

Það sem hæstv. sjávarútvegsráðherra reyndi að gera í umræðunni var að buna út úr sér úrskurði Samkeppnisstofnunar og gera einfalt mál flókið. Þetta er einfalt mál: Á að fara eftir þessu áliti eða ekki? Hefur það verið gert? Það hefur ekki verið gert, heldur kemur hæstv. sjávarútvegsráðherra og bunar út úr sér, lætur dæluna ganga og les upp álitið sem ég er að spyrja hann út í. Þetta mál snýst ekki um (Gripið fram í.) að lesa aftur upp álit Samkeppnisstofnunar og slíta það úr samhengi.

Ég verð að segja að þetta er mjög alvarlegt mál vegna þess að það fyrirtæki sem kvartaði undan slæmri samkeppnisstöðu, mjög vel rekið fyrirtæki, Gunnólfur ehf., er hætt rekstri. Það gat ekki búið við þá samkeppnisstöðu sem Sjálfstæðisflokkurinn bjó fyrirtækinu. Það verður því fróðlegt að heyra ræðu hæstv. sjávarútvegsráðherra um hvað hann hafi gert og hvaða gögn liggi fyrir. Ég vona svo sannarlega að hann geri einfalt mál ekki flóknara en þörf er á.