133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

jafnrétti til tónlistarnáms.

289. mál
[15:56]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er ákaflega vondur vitnisburður um verkleysið hjá hæstv. menntamálaráðherra. Henni hefur mistekist að leiða til lykta þessa deilu sem hefur staðið yfir meira og minna í þrjú ár. Að sjálfsögðu er afar brýnt að leysa deiluna eins og hæstv. ráðherra segir, en hún hefur brugðist þeirri grunnskyldu sinni að leysa það mál að tryggja jafnrétti til náms í tónlist og það er alvarlegt mál. Fyrir það líður heil kynslóð ungra Íslendinga.

Menntamálaráðherra hefur einfaldlega ekki tekist að leysa þetta ákaflega einfalda mál sem snýr að verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga annars vegar og jafnræði til tónlistarnáms hins vegar og deilan er skilin eftir árum saman í fanginu á einhverri nefnd úti í bæ út af deilum um 200 millj. Þetta eru smáaurar, hæstv. forseti, þetta er hæstv. menntamálaráðherra til vansa og vondur vitnisburður um árangursleysi í íslenskum menntamálum.