133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

jafnrétti til tónlistarnáms.

289. mál
[15:59]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Markmiðið á sínum tíma með samningi ráðuneytisins var vissulega að reyna að jafna stöðu nemenda í framhaldsskólum landsins til tónlistarnáms. En af hverju kom sá samningur? Það er beinlínis hlægilegt, frú forseti, að hlusta á hv. þingmenn Samfylkingarinnar koma hingað í pontu og tala um stefnuleysi í þessum málaflokki. Hvað varð til þess að við gerðum þennan samning á sínum tíma? Það var uppgjöf R-listans með Samfylkinguna í broddi fylkingar. Það var Samfylkingin sem setti tónlistarnám í landinu í uppnám með því að breyta reglunum varðandi fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. (Gripið fram í.) Við megum ekki (Gripið fram í.) gleyma því … (Gripið fram í.) Ég heyri það frú forseti, að þetta kemur við kaunin á þeim.

(Forseti (RG): Forseti biður þingmenn að gefa ræðumanni hljóð.)

Ég heyri að ég hef greinilega snert viðkvæman streng í brjóstum og hjarta hv. þingmanna Samfylkingarinnar. En þannig er þetta bara einfaldlega. (Gripið fram í.) Ég minni á að m.a. einn hv. borgarfulltrúi Vinstri grænna sagði sig frá samstarfi út af þessari upplausn R-listans varðandi tónlistarmálin í borginni. Þetta varð til þess að kasta upp þessum bolta og boltinn er því miður enn á lofti, því að (Gripið fram í.) það er ekki búið að klára þessi mál.

Ég ítreka enn og aftur skoðun mína. Grunn- og miðstigið á að vera á herðum sveitarfélaga, framhaldsstigið, hvort heldur það er í framhaldsskóla eða annars staðar, á að vera á herðum ríkisins. Um þetta höfum við því miður ekki náð samkomulagi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að það er slæmt ef það kemur til með að bitna á nemendum. En enn og aftur er ábyrgðin á herðum sveitarfélaga þegar kemur að tónlistarmálum, að óbreyttum lögum.