133. löggjafarþing — 43. fundur,  6. des. 2006.

fæðingar- og foreldraorlof.

428. mál
[21:01]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Frammíkall utan úr sal minnti mig áðan á að mörg mál væru eftir órædd í þinginu á þeim stutta tíma sem hefðum til umráða. Ég býst við að margir deili þeirri skoðun að það verði erfitt, á þeim stutta tíma sem við höfum fram að jólaleyfi ef það verður þá eitthvert jólaleyfi, að afgreiða öll þau mál sem fyrir okkur hafa verið lögð.

Hv. þingmaður verður að gera sér grein fyrir því að það er ekki við okkur í stjórnarandstöðunni að sakast þótt ráðherrar, hver á fætur öðrum, komi með hvert stórmálið á fætur öðru þegar nokkrir dagar lifa af þessu þingi. Ætli það séu ekki um fjögur mál, kannski fleiri, sem við eigum eftir að fá inn í efnahags- og viðskiptanefnd, sem hér eru til 1. umr. og eiga eftir að fara þar til meðferðar og eftir á að ræða í tveimur umferðum. Það er til skammar og til vansa fyrir þingið þegar mál koma svona seint fram, að það sé ekki hægt að senda þau til umsagnar með eðlilegum hætti til þeirra aðila sem vildu gjarnan fá að segja álit sitt á þeim málum.

Það er allt á mikilli hraðferð í gegnum þingið og gegnum nefndirnar. Mér finnst það, virðulegi forseti, til vansa og lítilsvirðing við þingið að framkvæmdarvaldið skuli bjóða okkur upp á að þurfa að hraða málum svo að varla sé hægt að segja að þau fái eðlilega umfjöllun í nefndum. Þetta er staðan. Það er fyrst og fremst við stjórnarliða og ráðherra þessarar ríkisstjórnar að sakast varðandi það hve mörg mál koma seint inn. Við höfum engar útskýringar fengið á því að málin skuli koma svo seint inn.

Þetta er fyrst og fremst til vansa fyrir þingið, að það skuli láta löggjafarvaldið bjóða sér upp á slíkt. Það þarf að mínu viti að fara að setja tímamörk á frumvörp frá ráðherrum, á hve seint fyrir jólaleyfi þau megi koma fram. En ég fullvissa hv. þingmann um að ég geri allt sem hægt er til að þetta tiltekna mál komist í gegnum þingið.