133. löggjafarþing — 43. fundur,  6. des. 2006.

ættleiðingarstyrkir.

429. mál
[21:16]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ættleiðingarstyrki. Ég vil í upphafi geta þess og gera grein fyrir þeirri forsögu málsins að ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum þann 17. febrúar sl. að hefja undirbúning að útfærslu greiðslna til foreldra sem ættleiða börn erlendis frá. Fyrrverandi félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, lagði tillögu þessa efnis fram í ríkisstjórn eftir að hafa farið yfir málið og menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að vista það í félagsmálaráðuneytinu. Þá hafa hv. alþingismenn lagt fram tillögu til þingsályktunar á nýliðnu þingi um styrki til foreldra er ættleiða börn frá útlöndum sem þingmenn margra flokka stóðu sameiginlega að.

Á grundvelli umfjöllunar ríkisstjórnarinnar um málið skipaði ég starfshóp til að útfæra í lög og/eða reglugerð reglur um styrki ríkisins til foreldra er ættleiða börn frá öðrum löndum. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni til mín í nóvember sl. og var í skýrslunni gerð tillaga um tiltekið fyrirkomulag ættleiðingarstyrkja sem frumvarpið byggir á.

Lagt er til það nýmæli að kjörforeldrar sem ættleitt hafa erlent barn eða börn í samræmi við lög um ættleiðingar geti sótt um fjárstyrk úr ríkissjóði. Gert er ráð fyrir að félagsmálaráðherra fari með yfirstjórn ættleiðingarstyrkja samkvæmt lögunum og er sú tillaga í samræmi við það sjónarmið að tengja þá styrki við umsýslu fæðingarstyrks sem greiddur er samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Jafnframt er lagt til að félagsmálaráðherra ákveði með reglugerð hvaða aðila hann felur framkvæmd laga þessara en nú er gert ráð fyrir að framkvæmdaraðili verði Vinnumálastofnun. Ein meginástæða þess er það hagræði sem hlýst af því að hafa greiðslur styrksins hjá sama aðila og hefur umsjón með greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Í frumvarpinu er lagt til að ættleiðingarstyrkur verði eingreiðsla sem greidd verði út samkvæmt umsókn kjörforeldra þegar erlenda ættleiðingin hefur verið staðfest hér á landi eða ættleiðingarleyfi hefur verið gefið út hér í samræmi við ákvæði laga um ættleiðingar.

Jafnframt er gert ráð fyrir að kjörforeldrar sem hafa fengið útgefið forsamþykki í samræmi við lög um ættleiðingar eigi einir rétt á ættleiðingarstyrk. Þeim sem búsettir eru hér á landi er óheimilt að ættleiða barn erlendis nema stjórnvöld samþykki það með útgáfu forsamþykkis til ættleiðingarinnar og er því eðlilegt að miða rétt til styrksins við þá sem fá slíkt forsamþykki.

Einnig er rétt að vekja athygli á því að gert er ráð fyrir að ættleiðingarstyrkur verði aðeins veittur vegna ættleiðinga sem fara fram fyrir milligöngu löggilts ættleiðingarfélags. Samkvæmt 18. gr. reglugerðar um ættleiðingar er þeim sem óska eftir forsamþykki til að ættleiða erlent barn skylt að leita milligöngu um ættleiðinguna hjá félagi sem hefur fengið löggildingu dómsmálaráðherra til að annast milligöngu um ættleiðingar milli landa. Þótt undantekningar finnist frá þeirri meginreglu í 19. gr. reglugerðarinnar þykir rétt að binda greiðslu styrksins við ættleiðingar sem fara fram fyrir milligöngu löggiltra ættleiðingarfélaga. Milliganga ættleiðingarfélags tryggir að ættleiðingin fari fram í samvinnu við hið erlenda ríki en það er grundvallaratriði þegar kemur að ættleiðingum milli landa. Af þessu skilyrði leiðir að svokallaðar fjölskylduættleiðingar falla utan ramma frumvarps þessa, en með því er átt við ættleiðingu á barni sem býr í öðru ríki en er í fjölskyldutengslum við eða er barn annars umsækjanda um ættleiðingu.

Hæstv. forseti. Við undirbúning frumvarpsins var óskað eftir sundurliðuðum upplýsingum frá Íslenskri ættleiðingu um heildarkostnað við að ættleiða erlend börn. Samkvæmt upplýsingum frá félaginu nemur heildarkostnaður við að ættleiða barn frá Kína um 1,2 millj. kr., frá Indlandi um 1,1 millj. kr. og frá Kólumbíu um 1,4 millj. kr. Lagt er til í frumvarpinu að fjárhæð ættleiðingarstyrks nemi 480 þús. kr. Forsendur við ákvörðun fjárhæðarinnar voru þær að ætlunin væri að veita styrk sem kæmi til móts við heildarkostnað kjörforeldra vegna ættleiðinga en ekki að greiða þann kostnað að fullu. Við ákvörðun fjárhæðarinnar var í fyrsta lagi litið til ferðakostnaðar frá Íslandi til ættleiðingarlands. Í öðru lagi var litið til kostnaðar vegna ættleiðingarinnar í viðkomandi landi eða kostnaðar vegna opinberrar umsýslu í ættleiðingarlandi, auk kostnaðar vegna greiðslu til barnaheimilis erlendis, stimpilgjalda vegna ættleiðingar, þýðingar erlendis og útgáfu vegabréfs barns erlendis. Að lokum var í þriðja lagi litið til kostnaðar vegna uppihalds í ættleiðingarlandi.

Dæmi eru um að kjörforeldrar ættleiði erlendis fleiri en eitt barn samtímis og er í frumvarpinu gert ráð fyrir að kjörforeldrum verði veittur styrkur vegna hvers barns umfram eitt sem nemur 20% af grunnfjárhæðinni. Ýmsar greiðslur sem áður voru greindar geta hækkað ef foreldrar ættleiða fleiri en eitt barn samtímis og því þykir rétt að fjárhæð styrksins taki mið af því.

Ástæða er til að taka fram að gert er ráð fyrir að ættleiðingarstyrkir verði veittir kjörforeldrum án tillits til fjárhagsstöðu þeirra. Mun það meðal annars einfalda til muna alla umsýslu vegna umsókna um styrki sem hefur í för með sér að kostnaður vegna umsýslunnar verður lítill og líkur á ágreinings- og kærumálum hverfandi.

Í þessu samhengi vakna spurningar um skattumhverfi ættleiðingarstyrks. Við undirbúning málsins náðist sátt um að leggja til að styrkirnir verði undanþegnir staðgreiðslu en slíkt kallar á breytingu á reglugerð fjármálaráðuneytisins um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu. Einnig er þörf á að breyta A-lið 30. gr. laga um tekjuskatt þannig að leyfður verði frádráttur frá tekjum sem byggist á sannanlegum kostnaði sem fólk þarf að standa undir við ættleiðingu barns. Gert er ráð fyrir að samhliða umfjöllun um þetta frumvarp verði litið til þeirra laga sem hér eru nefnd.

Að lokum, virðulegur forseti, er rétt að geta þess að lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar nk. og verði frumvarpið að lögum fyrir þann tíma eiga kjörforeldrar barna sem ættleidd verða eftir gildistöku laganna rétt til styrks samkvæmt lögunum. Við undirbúning frumvarps þessa var rætt um hvort aðeins ætti að greiða ættleiðingarstyrki vegna þeirra ættleiðingarmála er hefjast eftir gildistöku laga um ættleiðingarstyrki. Þótti það ekki æskilegt viðmiðunarmark enda gæti þá liðið langur tími þar til að útgreiðslu styrkja kæmi.

Hæstv. forseti. Það er mér mikið ánægjuefni að fá tækifæri til að leggja það frumvarp sem hér um ræðir fram á Alþingi. Ég tel að þetta sé mikið réttlætismál við að fylgja öllum öðrum Norðurlöndum í þessu efni. Þetta mál varðar grundvallaratriði í samfélaginu, einkum að tvennu leyti, annars vegar að því er varðar jöfnuð milli foreldra og barna hér á landi og hins vegar að því er varðar réttinn til fjölskyldulífs. Þá erum við jafnframt að færa þessum börnum mjög gott líf til frambúðar. Það finnst mér skipta máli í umræðu um þessi mál.

Hæstv. forseti. Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.