133. löggjafarþing — 43. fundur,  6. des. 2006.

ættleiðingarstyrkir.

429. mál
[21:49]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Meiri hluti ræðumanna hefur tekið þessu máli vel og það er gott. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum fyrir að vilja liðka fyrir framgangi málsins. Ég tel það mikilvægt. Rætt hefur verið um að þessi lög taki gildi 1. janúar. Auðvitað er málið seint fram komið en ég tel mikilvægt að ná að ljúka því þannig að það taki gildi 1. janúar.

Komið hafa fram ábendingar og athugasemdir varðandi efni málsins. Ég tel eðlilegt að félagsmálanefnd fjalli um þær og komist að niðurstöðu. Ég er að sjálfsögðu tilbúinn til að vinna með nefndinni í vinnslu málsins ef þess er óskað. En ég held ég svari þessum spurningum, sérstaklega frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, á þá leið að nefndin fari yfir þau atriði í umfjöllun sinni.

Pétur H. Blöndal hv. þm. kom með sín sjónarmið. Ég virði þau að sjálfsögðu. Hann er á móti þessu máli. Það er hans sjónarmið og allt í góðu með það. Ég vil hins vegar segja, í samhengi við það, að ég hef fundið fyrir almennri ánægju í samfélaginu vegna þessa máls, ekki eingöngu fólks sem á hagsmuna að gæta heldur hefur mér fundist að almennt finnist fólki þetta réttlætismál.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, hæstv. forseti. Ég ítreka það sem ég sagði, að ég er ánægður með að fá tækifæri til að mæla fyrir þessu frumvarpi. Hér er nýlunda á ferðinni sem ég tel jákvæða og góða og ég vonast til að málið fái góðan framgang á Alþingi.