133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

ummæli þingmanns um samgönguráðherra og Vegagerðina.

[10:55]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég hlýt að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta, að fá ekki tækifæri til að bera af mér sakir. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon heldur því fram að ég hafi veist að Vegagerðinni og vegamálastjóra. Það er bara alrangt. Ég veit ekki í hvaða hugarheimi hann er eða á hvern hann hefur verið að hlusta hér, sá ágæti þingmaður, nema hann hafi smitast af málflutningi hv. þm. Björgvins Sigurðssonar.

Það er nú orðið þannig hjá hv. þm. Björgvini Sigurðssyni og Steingrími J. Sigfússyni upp á síðkastið að það er tæplega svaravert sem þeir leggja hér á borð fyrir þingmenn í umræðum um vegamál.

Staðreynd málsins er hins vegar sú að ég held að hv. þingmenn ættu að leggja sig fram um að standa með samgönguráðherra í þeirri viðleitni að byggja upp samgöngukerfið á grundvelli þeirra ályktana sem hér hafa verið samþykktar frá þinginu. Það eru viðfangsefni okkar og verkefni. Í öðru lagi að leggja sig fram um að vinna að umferðaröryggismálum og leggja áherslu á það að umferðarmenningin á Íslandi verði bætt. Það er hið stóra verkefni okkar íslenskra alþingismanna, að leggja áherslu á bætta umferðarmenningu hér á Íslandi til viðbótar því verkefni að byggja upp samgöngu- og vegakerfið að öðru leyti. Það er það verkefni sem við ættum að sameinast um og hv. þingmenn að leggja áherslu á. (Gripið fram í: … hætta að gera vegáætlun.)