133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

ummæli þingmanns um samgönguráðherra og Vegagerðina.

[11:05]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um fundarstjórn forseta, einkum vegna þess að mér blöskraði í upphafi þessi umræða um störf þingsins sem hófst á því nánast að skamma Vegagerðina, þ.e. undirstofnun samgönguráðherra, fyrir að hafa ekki komið fram með hugmyndir og útfært þær sem pólitísk ákvörðun hafði ekki verið tekin um. Það er raunverulega verið að skamma fjarstadda aðila, og pólitíkusar á hinu háa Alþingi reyna að benda á einhverja aðra en sjálfa sig þegar kemur að því að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Þegar á þetta er bent rýkur í pontu hv. þm. Hjálmar Árnason, bendir út og suður og reynir að skapa hér einhverja úlfúð og leiðindi um verkefni sem um hefur verið pólitísk samstaða um langt skeið. Hins vegar hefur vantað forgangsröðun og kraft í ríkisstjórnina til að ráðast í þau verkefni. Núna þegar kosningar vofa yfir liggur mikið við og núna, þegar liggur fyrir að 95% þjóðarinnar eða svo treysta ekki Framsóknarflokknum, liggur mikið við að fara að ráðast í þessi verkefni.

(Forseti (SP): Þetta er ekki umræða um fundarstjórn forseta.)