133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[11:30]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og sömuleiðis fyrir að ætla sér að sleppa því að hæða og spotta þann sem hér stendur. Ætla ég þá ekki að gera það gagnvart þeim hv. þingmanni, þótt ég hefði kannski tilefni til.

Hv. þingmaður fjallar hér um samkeppnislega mismunun sem getið er um í umsögn Samkeppniseftirlitsins. Ég held að í sjálfu sér sé ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu á markaði þar sem ríkið tekur þátt í samkeppni en að þar ríki einhvers konar mismunun. Það skiptir engu máli hvort það er á lánamarkaði, smásölumarkaði, eða á fjölmiðlamarkaði. Um leið og ríkið er orðið þátttakandi á slíkum markaði þá ríkir einhvers konar mismunun gagnvart þeim einkaaðilum sem einnig starfa á þeim markaði.

Hv. þingmaður hefur nú ekki lagt það til að Ríkisútvarpið hverfi af þeim markaði þannig að ég geri ráð fyrir að hann sé þeirrar skoðunar að það beri að halda þessari mismunun við að minnsta kosti að einhverju leyti vegna þess að leikurinn verður alltaf ójafn þegar ríkið er þátttakandi.

Það er rétt að Samkeppnisstofnun eða Samkeppniseftirlitið leggur til tvær leiðir. Önnur er sú að ríkið hverfi alfarið af auglýsingamarkaði. Um það er ekki pólitísk samstaða innan Alþingis.

Hin er sú að stofnuð verði önnur stöð þar sem auglýsingar eru birtar. Önnur sjónvarpsstöð. Ég hef litið þannig á að tilgangurinn með þessu frumvarpi sé ekki sá að sjónvarpsstöðvum Ríkisútvarpsins verði fjölgað svo mér finnst sú leið ekki fýsileg.

Sú leið sem við leggjum til að verði farin kemur fram í breytingartillögum okkar en með þeim er að sjálfsögðu verið að koma til móts við (Forseti hringir.) fyrri leiðina sem Samkeppniseftirlitið leggur til.