133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[11:32]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur alveg skýrt fram að Samkeppnisstofnun telur að það séu einungis tvær leiðir færar til að koma í veg fyrir samkeppnislega mismunun. Það er ekkert afbrigði af þeim sem kemur til greina. Það er ekki hægt að fara þá leið sem farin er með breytingartillögum meiri hlutans. Það liggur einfaldlega alveg ljóst fyrir að frumvarpið sem nú er verið að samþykkja hefur í för með sér samkeppnislega mismunun. Það kemur ljóst fram líka að þetta brýtur gegn anda samkeppnislaga.

Það er ekki hægt að skilja niðurlag álits Samkeppnisstofnunar öðruvísi en svo að stofnunin muni grípa til aðgerða hér innan lands ef önnur hvor þeirra leiða sem hún leggur til verður ekki farin. Af því er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að fullkomin óvissa ríki um hvort þetta frumvarp standist samkeppnislög eða anda þeirra.

Punktur málsins, og það sem mér finnst varða mestu um þetta atriði, er það að hv. formaður menntamálanefndar er vitandi vits að þrýsta hér í gegn frumvarpi sem brýtur gegn anda samkeppnislaganna. Hann veit af því. Ein af traustustu eftirlitsstofnunum ríkisins hefur varað hann við því. Hann veit af því að vegna frumvarpsins á íslenska ríkið yfir höfði sér margra ára málaferli og hugsanlega getur það bakað sér mikla skaðabótaskyldu.

En samt kemur hv. þingmaður, formaður menntamálanefndar, sem þar að auki er lögfræðingur, og reynir að þrýsta málinu í gegn. Hann veit að hann er að búa til réttaróvissu. Hann veit að gjörð hans kann að baka ríkinu mikla skaðabótaábyrgð. Samt gerir hann þetta.

Ég velti því fyrir mér, frú forseti, af hverju? Í öllu falli, frú forseti, þá sýnir þetta okkur að málið er ekki fullrannsakað (Forseti hringir.) vegna þess að hv. þingmaður er ekki alveg klár á því til hvers þetta leiðir.