133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[11:34]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu þá leiðir tilvist ríkisins á markaði til mismununar. Þátttaka ríkisins á hvaða markaði sem er leiðir til þess að á þeim markaði er leikurinn ójafn.

Það skiptir ekki máli hvort um fjölmiðlamarkað, smásölumarkað, lánamarkað eða annan markað er að ræða. Þátttaka ríkisins á samkeppnismarkaði leiðir til þess að aðilar sem starfa á þeim markaði standa ekki jafnir.

Hv. þingmaður vék að réttaróvissunni og spurði hvort með þessu frumvarpi væri verið að skapa réttaróvissu og búa í haginn fyrir framtíðarmálaferli milli ríkis og einkaaðila sem starfa á þeim markaði. Hann sagði að búast mætti við því að Samkeppniseftirlitið gripi til aðgerða vegna þessa frumvarps.

Nú er það þannig, að í þessu máli eru tvö samkeppnissjónarmið uppi. Annars vegar spurningin um það, og ég vona að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sé að hlusta á mig, að frumvarpið brjóti gegn ákvæðum um ríkisstyrki. Eftirlitsstofnun EFTA mun hafa það mál til athugunar ef einhver telur að svo sé, og raunar er það þannig að við teljum okkur vera á þurru landi hvað það atriði varðar.

Hvað varðar hin sjónarmiðin, um það hvort frumvarpið stríði gegn markmiðum samkeppnislaga, þá hefur því verið haldið fram. En öfugt við það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði, þá lýsti Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, því sérstaklega yfir að verði frumvarpið að lögum með þessum hætti þá mundi Samkeppnisstofnun eða Samkeppniseftirlitið ekki grípa til neinna aðgerða vegna þess að frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. er frumvarp til sérlaga. Samkeppnislögin eru almenn lög og hann tók það sérstaklega fram, eins og við öll vitum, að sérlög ganga fram af almennum lögum og (Forseti hringir.) eftir stendur að löggjafinn getur alltaf gert það sem honum sýnist, svo ég taki nú orð forstjóra Samkeppniseftirlitsins mér í munn. Þannig að þetta var niðurstaðan og ég bið hv. þingmann um að hafa rétt eftir mönnum.