133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:15]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það fer ekki fram hjá neinum að við erum að ræða um málefni Ríkisútvarpsins. Ég vil í upphafi þakka umhyggju annarra flokka fyrir hönd Framsóknarflokksins. Það er gott að finna fyrir hlýhug. Hins vegar er það svo að í þessu máli hefur Framsóknarflokkurinn lagt mikla vinnu í málefni Ríkisútvarpsins og það eru mörg ár síðan byrjað var að ræða um hvað hægt væri að gera til að efla Ríkisútvarpið og það var ekki síst eftir breytingar á fjölmiðlamarkaði þegar aðrar stöðvar komu inn og menn sáu að lítið svigrúm var til að hreyfa við að menn fóru að skoða stjórnskipulag Ríkisútvarpsins og hvað hægt væri að gera. Það er ekkert launungarmál að það mál lá ofan í skúffu í mjög langan tíma og ég tel að það hafi verið vegna hárra radda um að til greina kæmi að selja Ríkisútvarpið. Hins vegar hefur það gerst á síðustu árum, eins og ég hef farið yfir í nokkrum ræðum á undan, að það viðhorf hefur breyst sem betur fer og þegar það gerðist var Framsóknarflokkurinn tilbúinn að fara áfram með þetta mál.

Það var þannig, af því að mönnum hefur verið tíðrætt um samþykktir Framsóknarflokksins í þessu máli, að fyrir síðasta flokksþing okkar starfaði undirbúningshópur sem fjallaði m.a. um málefni Ríkisútvarpsins. Þar voru mótaðar tillögur sem síðan fóru inn í málefnahópa á flokksþinginu og þar var samþykkt ályktun þar sem sú meginhugsun kom fram að rekstrarformið skipti ekki höfuðmáli heldur það grundvallaratriði að Ríkisútvarpið er ekki til sölu. Ég tel að þetta hafi verið afar lýðræðisleg leið, þ.e. auglýst var eftir fólki í þá málefnavinnu og hún fór fram. Einnig má geta þess, af því að sú umræða hefur komið upp, að málið var tekið upp á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem var haldinn fyrir stuttu og þar var ekki nokkur stuðningur við það að álykta gegn þessu máli.

Ég vildi bara fara í gegnum þessa forsögu í ljósi þess sem hér hefur verið sagt. Við framsóknarmenn teljum að með frumvarpinu sé verið að efla Ríkisútvarpið og ég held að menn þurfi ekki að gera annað en lesa umsagnir samkeppnisaðila til að styðja við það og sérstaklega þar sem þeir kalla þetta mikla ríkisvæðingu og við erum afar sátt við það.

Ríkisútvarpið ohf. verður ríkishlutafélag í almannaeigu og það er, eins og ég sagði áðan, skýrt að félagið verður ekki selt og því eigi ekki að skipta upp. Ég ítreka að sú niðurstaða er í takt við samþykkt flokksþings frá árinu í fyrra. Í frumvarpinu er skerpt á hlutverkum Ríkisútvarpsins bæði með ítarlegum ákvæðum í frumvarpinu og í drögum að þjónustusamningi sem fylgir frumvarpinu. Miklar breytingar hafa orðið á efni frumvarpsins frá því það var lagt fyrst fram á Alþingi fyrir tæpum tveimur árum. Við höfum verið að vinna að lagfæringum á efni þess í menntamálanefnd Alþingis og einnig af hálfu ráðuneytisins og óþarfi að tíunda þær breytingar sem hafa komið fram.

Í frumvarpinu er allur fyrirvari um sölu numinn á brott til að leggja áherslu á að ekki eigi að selja Ríkisútvarpið og jafnframt er tryggt að nýja lagasetningu þurfi frá Alþingi til að svo geti orðið. Þess vegna er 1. gr. í frumvarpinu mjög mikilvæg og hún tekur af öll tvímæli um sölu Ríkisútvarpsins og það þykja mér í raun vera stærstu tíðindin í þessu máli og mjög ánægjuleg. Ljóst er að vilji beggja stjórnarflokka í málinu er skýr. Ekki stendur til að selja Ríkisútvarpið og ég er þess fullviss að það mun lifa lengi í eigu okkar allra.

Núgildandi lög um Ríkisútvarpið eru að stofni til frá árinu 1986. Miklar breytingar hafa orðið á fjölmiðlamarkaði síðan þá en eins og ég sagði áðan hefur óeining um breytingar á starfsemi Ríkisútvarpsins hamlað eðlilegri þróun innan hennar. Nú er svo komið að óvissan um framtíðarskipan hefur haft lamandi áhrif á reksturinn. Því er afar brýnt að marka starfseminni skýra lagaumgjörð og veita RÚV það tækifæri sem það þarf til að takast á við gerbreytt umhverfi. Ég tel að Ríkisútvarpið hafi dálítið misst af síðustu ár varðandi þetta atriði.

Framsóknarflokkurinn hefur ávallt lagt áherslu á að hér á landi verði rekinn öflugur ríkisfjölmiðill þar sem m.a. verði tryggð fjölbreytni og skoðanafrelsi og hann standi öllum landsmönnum til boða. Með breytingum á lögum um RÚV er verið að festa almannaútvarp í sessi og tekin af öll tvímæli um að ekki skuli einkavæða reksturinn. Þau atriði sem framsóknarmenn hafa staðið vörð um eru fyrst og fremst þau að RÚV er ekki til sölu. Hlutverk þess verði tryggt, réttindi starfsmanna tryggð og RÚV fái alla möguleika til að eflast enn frekar á fjölmiðlamarkaði. Mér finnst líka mikilvægt í ljósi þess að meiri hlutinn leggur til breytingar á frumvarpinu sem varða kostun og auglýsingar á vefmiðli, það er alveg skýrt, þó að menn í hv. stjórnarandstöðu reyni að leggja það þannig upp að þetta þýði í rauninni ekki neitt, að við erum auðvitað að setja ákveðin mörk á frekari þróun kostunar og eins að það megi ekki, það er alveg girt fyrir það að auglýsa megi á vef Ríkisútvarpsins.

Einnig er sagt svo ég vitni örstutt í nefndarálit meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn vill beina því til menntamálaráðherra að mælast, í þjónustusamningi milli menntamálaráðuneytisins og Ríkisútvarpsins ohf., til þess að þeim tekjum sem félagið aflar sér með kostunarsamningum verði fremur varið til kostunar á dagskrárliðum sem varða íslenska tungu, sögu og menningararfleifð, fremur en til kostunar á erlendu afþreyingarefni.“

Ég held að þetta sé mjög mikilvægt og er þess fullviss að hæstv. menntamálaráðherra mun taka tillit til þessa. Þarna erum við í raun að koma í veg fyrir að þessir kannski vinsælu erlendu þættir séu í boði ákveðinna fyrirtækja og þarna verði ekki frekari vöxtur. En við vildum hins vegar ekki loka á að Ríkisútvarpið geti nýtt sér vilja fyrirtækja til að kosta það að koma íslenskri menningararfleifð á framfæri. Það kom t.d. fram í máli útvarpsstjóra — segjum sem svo að einhver fyrirtæki vilji bjóða upp á glæsilega tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar á sunnudagseftirmiðdögum, þá finnst mér það ekki vera hlutverk okkar að koma í veg fyrir það. Og eins er það þekkt að ákveðnir atburðir eru skilyrtir við kostun. Það er því að mínu mati nauðsynlegt að halda þessu opnu.

Ég tel að við séum að koma til móts við athugasemdir samkeppnisaðilanna með þessu tvennu, þ.e. með því að setja þak á kostunina og með því að banna auglýsingar á vef Ríkisútvarpsins. Við vitum að mikið er farið inn á vef Ríkisútvarpsins. Gríðarlega mikið efni og upplýsingar eru þar inni og alveg ljóst að það hefði haft mikil áhrif á aðra vefmiðla ef samkeppni varðandi auglýsingar þar hefðu ríkt. Við erum með þessu að koma töluvert í veg fyrir tekjuöflun Ríkisútvarpsins en viljum þó gæta þess að það sé áfram á auglýsingamarkaði og við erum ekki að skerða tekjurnar það mikið að það muni hefta þróun og í rauninni tækifæri Ríkisútvarpsins til að keppa á þessum markaði í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Við erum búin að ræða þetta mál nokkrum sinnum í þingsölum og búið er að leggja í þetta — ég efast um að nokkurt mál hafi fengið eins mikla og vandaða umfjöllun í nefnd á Alþingi og tel að kominn sé tími til að við klárum þetta. Það eru vissulega, eins og fram hefur komið, skiptar skoðanir um málið og ég held að við séum komin að þeim mörkum að menn gangi ekki lengra, komið hefur verið til móts við flestar athugasemdir. Ég vil ítreka að við framsóknarmenn teljum að við séum að efla Ríkisútvarpið og séum að styðja við bakið á því. Við höfum mikinn metnað fyrir hönd Ríkisútvarpsins, að það sinni hlutverki sínu sem almannaþjónustuútvarp og tel að mikilvægi þess sé mjög mikið nú á tímum og reynsla frá öðrum löndum sýnir okkur líka að menn vilja standa vörð um almannaútvarp. Ég lýk máli mínu en ítreka stuðning okkar við málið.