133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:36]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er kannski tómt mál að tala um þetta við fulltrúa Framsóknarflokksins sem hafa þar að auki tekið trú á 1. gr. í frumvarpinu og halda að þar með sé höggvið í granít það sem þar stendur. Staðreyndin er sú að einfaldur meiri hluti getur breytt þessu á Alþingi hvenær sem honum sýnist.

Varðandi sjálfstæði Ríkisútvarpsins er vert að benda hv. þingmanni á að ef maður les frumvarpið lengra en í 1. gr. þá kemur í ljós að kjósa á stjórn Ríkisútvarpsins, sem er alráð yfir útvarpinu, á hverju ári. Hana skipar meiri hluti ríkisstjórnarinnar sem þar með þýðir að ríkisstjórnarmeirihluti ræður í Ríkisútvarpinu öllu. Hann tekur bæði mikilsverðar ákvarðanir um fjármál og ræður útvarpsstjóra. Hann ræður hann til ótakmarkaðs tíma sem þýðir að meiri hlutinn getur sagt honum upp hvenær sem er. Þá spyr maður: Bíddu, er þetta hugmynd Framsóknarflokksins og hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur um sjálfstætt almannaútvarp?