133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:42]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það var nokkuð afdráttarlaust.

Ég ætlaði að inna hana eftir öðru. Eins og fram hefur komið þá tíðkast hvergi á Norðurlöndunum, að ég held, né í Bretlandi, að ríkisrekin ljósvakafyrirtæki starfi á auglýsingamarkaði. Hin augljósu rök fyrir því eru að það þrengi um of að starfsemi einkarekinna fyrirtækja á sama markaði og sérstaklega á jafnsmáum fjölmiðlamarkaði og hinum íslenska, þar sem lítið pláss er fyrir öflug ljósvakafyrirtæki. Þau 20 ár sem íslenski ljósvakinn hefur verið frjáls hafa fyrirtæki í útvarpsrekstri barist í bökkum.

Það er mikilvægt að gæta sanngirni gagnvart þessum fyrirtækjum. Það á að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Það verður að jafna samkeppnisforskotið og koma í veg fyrir ríkisvæðingu á ljósvakamarkaði. Ég ætlaði að spyrja hvort hv. þingmaður taki undir með mér og hv. formanni (Forseti hringir.) menntamálanefndar í því máli.