133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:17]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem skiptir máli varðandi það frumvarp sem hér er til umfjöllunar er þetta: Í fyrsta lagi að Framsóknarflokkurinn er búinn að beygja Sjálfstæðisflokkinn af einkavæðingarstefnu RÚV. Í öðru lagi er verið að styrkja Ríkisútvarpið þannig að það má frekar segja að verið sé að stuðla að aukinni ríkisvæðingu með frumvarpinu eins og það er nú orðið eftir meðför menntamálanefndar.

Það vakti hins vegar athygli mína í dag, sem mig langar til að víkja nokkrum orðum að í þessu andsvari mínu, að hv. þm. Mörður Árnason sem er fulltrúi Samfylkingarinnar í menntamálanefnd gat þess að Samfylkingin væri nú farin að reka „gömlu framsóknarstefnuna“ eins og hann kallaði það, þ.e. um að breyta Ríkisútvarpinu í sjálfseignarstofnun. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem Samfylkingin tekur upp mál Framsóknarflokksins. Það er orðið nokkuð hefðbundið þrátt fyrir að traust kjósenda á nokkrum þingmönnum Samfylkingarinnar sé lítið eins og hv. síðasti ræðumaður, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, gat um. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvort þess sé að vænta að Samfylkingin muni þá síðar taka upp núverandi stefnu Framsóknarflokksins. Og síðan í öðru lagi hvernig þessi nýja stefna Samfylkingarinnar, eftir síðasta hringlandaháttinn, kemur heim og saman við skoðanir varaformanns Samfylkingarinnar sem styður það að Ríkisútvarpinu verði breytt í opinbert hlutafélag.