133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:57]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U):

Frú forseti. Enn og aftur tölum við um frumvarp til breytinga á Ríkisútvarpinu. Það er tvennt sem mig langar aðallega að koma inn á í ræðu minni í kvöld. Annars vegar eru vangaveltur mínar og annarra um að þetta sé einungis undanfari sölu á Ríkisútvarpinu. Hins vegar langar mig að fara yfir starfsmannamálin.

Margir telja að frumvarpið um RÚV ohf. sé í raun dulbúinn aðdragandi að sölu á Ríkisútvarpinu. Í sjálfu sér hefur ekkert gerst milli 1. og 2. umr. sem breytir þeirri skoðun manna. Lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hafa ekki skýrt gildi lengur fyrir starfsmenn ef þessar breytingar verða að veruleika og marka því ekki lengur réttarstöðu þeirra, sem er ákveðinn vísir að einkavæðingu.

Þegar lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna taka ekki lengur til starfseminnar og stjórnendur opinbers hlutafélags verða ekki fremur en aðrir stjórnendur í hlutafélögum bundnir af ákvæðum stjórnsýslulaga hefur starfsemin hefur í raun verið einkavædd, þ.e. flutt á svið einkaréttar. Réttarstaðan verður þar af leiðandi sú sama og gildir um aðra starfsemi á almennum markaði. Starfsmenn munu ekki njóta þeirrar ráðningarfestu sem þeir hafa notið sem opinberir starfsmenn og stofnunin mun starfa eftir svipuðum leikreglum og aðrir einkaaðilar. Ríkisútvarpið færist af sviði opinbers rekstrar yfir á svið einkarekstrar.

Ríkisútvarpið ohf. mun ekki til langframa getað varið sig gagnvart kröfum annarra keppinauta um takmörkun eða afnám ríkisstyrkja í formi afnotagjalda eða nefskatts, jafnvel þrátt fyrir að slíku framlagi sé einungis ætlað að verja til þess hluta starfseminnar sem fellur undir almannaþjónustu. Það er því líklegt, frú forseti, að fyrr eða síðar muni keppinautar Ríkisútvarpsins láta á þetta reyna fyrir dómstólum og samkeppnisyfirvöldum.

Eitt af því sem vakið hefur athygli í ræðuflutningi í dag er að í andsvörum hélt hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson því fram að Framsóknarflokkurinn væri búinn að svínbeygja Sjálfstæðisflokkinn frá því að einkavæða RÚV. Hann viðurkennir þar með að það hafi alltaf staðið til, a.m.k. hjá Sjálfstæðisflokknum. Hvort tekist hafi að svínbeygja hann skal ég hins vegar ekki segja til um.

Varðandi starfsfólk Ríkisútvarpsins, réttindi þeirra og skyldur, er í frumvarpinu ákvæði til bráðabirgða II. Í frumvarpinu er vísað til þess á bls. 10 að tryggilega sé búið um réttindi núverandi starfsmanna Ríkisútvarpsins samkvæmt því ákvæði. Þrátt fyrir þá fullyrðingu hafa allir þeir umsagnaraðilar sem sérstaklega hafa vit á starfsmannamálum mótmælt því harkalega og telja að ekki nógu langt gengið í að tryggja réttindi starfsmanna.

Stjórnarandstaðan kom með ábendingar við 1. umr. um þessi atriði, þ.e. réttindi starfsmanna. Engu hefur verið breytt þar hjá menntamálanefnd þannig að eftir standa þær umsagnir sem hafa gert athugasemdir við þessi ákvæði. Þegar stofnunin verður lögð niður breytist, eins og ég hef tekið fram, hið lagalega umhverfi starfsmanna RÚV. Þeir hætta að vera opinberir starfsmenn og verða eftir það starfsmenn á almennum vinnumarkaði þannig að lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gilda ekki um þá.

Eitt af því sem kvartað hefur verið yfir varðandi frumvarpið er að starfsmenn fá ekki skýr svör um stöðu sína við breytinguna. Þeir hljóta að eiga rétt á að fá ótvírætt úr því skorið hver staða þeirra verði í framtíðinni. Við höfum önnur dæmi, nú síðast hjá flugumferðarstjórum og þar á undan hjá Matvælaeftirlitinu þar sem ekki var nægilega vel gengið frá réttindum starfsfólks. Ekki er hægt að sjá annað en þeirra réttindi hafi verið skert og maður hlýtur að ætla að það sé gert viljandi.

Frú forseti. Ég held að tilgangurinn með frumvarpinu sé tvíþættur. Annars vegar er verið að undirbúa Ríkisútvarpið undir sölu, undir einkavæðingu og hins vegar tel ég að réttur starfsfólks sé skertur vísvitandi. Núverandi starfsmönnum og verðandi starfsmönnum Ríkisútvarpsins verður breytt í starfsmenn á almennum vinnumarkaði í viðleitni til að skerða ýmis réttindi þeirra sem opinberir starfsmenn hafa. Ég hef þó kannski meiri áhyggjur af því að þetta sé hluti af því ferli núverandi meiri hluta að skerða rétt, ekki bara almennra starfsmanna heldur og til að höggva í raðir stéttarfélaga. Þau eru þyrnir í augum margra í Sjálfstæðisflokknum og kollega þeirra um víða veröld.

Varðandi starfsmennina er margt óljóst og í umsögn frá Starfsmannafélagi Ríkisútvarpsins nefna þeir að þeir vilji helst fá að halda samningsrétti sínum fyrir hönd núverandi starfsmanna og einnig þeirra sem munu ráðnir í framtíðinni. Því hefur í engu verið svarað, t.d. hvort þetta félag fái að starfa áfram og fái að sjá um samningsrétt fyrir sína félagsmenn og fái jafnframt að vera aðili að BSRB. Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins vill jafnframt að félagsmenn, núverandi og í framtíðinni, verði í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Eins og margoft hefur komið fram í dag er þar einnig gerð tilraun til að skerða réttinn og er ekki sama hvort menn eru í A-hluta eða B-hluta lífeyrissjóðsins.

Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins leggur einnig áherslu á að allir félagsmenn haldi núverandi réttindum sínum. Í frumvarpinu er ekkert sem bendir til þess að það muni gerast. Margt hefur verið fullyrt um það í ræðum í dag en þegar maður les álit þeirra sem vit hafa á er ekki að sjá að núverandi starfsmenn haldi réttindum sínum. Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins óskar einnig eftir því að starfsfólki verði boðin sömu eða sambærileg störf en vart er hægt að sjá að það sé ætlunin.

Í umsögn frá Félagi fréttamanna eru settar fram efasemdir um frumvarpið, sérstaklega varðandi starfsmannamál. Ekki verður annað séð, frú forseti, en að ætlunin sé að nýta þetta tækifæri, þessa formbreytingu, til þess að skerða kjör starfsfólks RÚV.

Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins taka skýrt fram að þau telji að kaflinn um réttindi starfsmanna sé ófullnægjandi og ítreka að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins geti ekki gilt eftir breytingu Ríkisútvarpsins í Ríkisútvarpið ohf. Þar af leiðandi hljóta kjör þeirra að skerðast, þ.e. biðlaunaréttur, lífeyrisréttindi, aðild að stéttarfélögum, uppsagnarréttindi, þar með talinn réttur til áminningar, svokallað áminningarferli vegna uppsagna, veikindaréttur, fæðingarorlofs- og orlofsréttur. Það er sama hvar borið er niður, frú forseti, alls staðar kemur skýrt fram að ef frumvarpið fari óbreytt í gegn muni það skerða á afdrifaríkan hátt réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins og jafnframt muni nýju starfsfólki bjóðast verri kjör.

Í umsögn BSRB og BHM er ítarlega farið yfir frumvarpið. Að sjálfsögðu hefur oft verið vitnað í álitsgerð þeirra. En það kemur skýrt fram að frumvarpið muni hafa miklar skerðingar í för með sér og ákvæði til bráðabirgða II haldi engan veginn. Biðlaunaréttur verður skertur, lífeyrisréttur, samningsréttur o.s.frv. Eitthvað segir manni að varast beri breytingar þegar ekki fást skýr svör við því hver sé tilgangurinn. Áhugi ákveðinna manna til að selja Ríkisútvarpið kemur upp í hugann. Það er ekki hægt að halda því fram við þessa umræðu, frú forseti, að það sé ekki tilgangurinn eða ætlunin að gera svo í framtíðinni. Margt bendir til þess að ætlunin hafi alla tíð verið sú. Það kemur skýrast í ljós í frumvarpi til laga sem nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal núverandi formaður menntamálanefndar, lögðu fram á 131. löggjafarþingi um breytingu á útvarpslögum. Þar er alveg skýrt hver tilgangurinn er. Þeir ganga meira að segja það langt að setja upp í tímaáætlun hvenær RÚV skuli selt. Í frumvarpi þeirra segir að fyrir árslok 2004 skuli Ríkisútvarpið hf. selt, en frumvarpið var lagt fram 2003. Það er ljóst hvað vakti fyrir hv. þingmönnum þegar þeir lögðu fram frumvarp sitt fyrir þremur árum síðan og ekkert bendir til þess, þrátt fyrir fögur orð, að sá áhugi á að einkavæða Ríkisútvarpið hafi dofnað.

Það er merkilegt að skoða ræðu hæstv. menntamálaráðherra frá 17. október, við 1. umr. Þar segir hún, með leyfi forseta:

„Ég ætla að fara yfir nokkur atriði sem hæst hefur borið í umræðunni, m.a. þá lensku stjórnarandstöðunnar að telja frumvarpið vera undanfara sölu. Það er sama hve oft því er mótmælt úr þessum ræðustól, hversu oft það er fullyrt af flutningsmanni frumvarpsins og helstu talsmönnum stjórnarflokkanna. Það er ekki hlustað þegar kemur að þessu atriði, frekar farið í að sá fræjum tortryggni og efast um það sem sagt er. … Ég spyr: Í stefnu hvaða stjórnmálaflokks er gert ráð fyrir að selja Ríkisútvarpið?“

Það er nefnilega einmitt málið, frú forseti. Það kemur kannski ekki skýrt fram í stefnu flokksins en það kom mjög skýrt fram í frumvarpi sem ég vitnaði í áðan að vilji er meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins til að selja Ríkisútvarpið.

Eitt hefur vakið athygli mína sérstaklega varðandi þetta mál, sem kemur fram í þriðja skiptið, núna undir merkjum ohf., en aftan í það var hnýtt svokölluðum drögum að þjónustusamningi. Hvers vegna var það gert? Jú, ég held að ekkert mæli á móti því að þessi samningur sé gerður í dag og við núverandi aðstæður. Hins vegar er alveg ljóst að þessi drög voru lögð fram í september í þeim tilgangi að hafa áhrif á skoðanir þingmanna í vetur. Því var strax haldið fram að ef þetta frumvarp yrði ekki að lögum mundi þjónustusamningurinn, sem fyrst og fremst gengur út á aukna innlenda dagskrárgerð, ekki verða að veruleika.

Það er slæmt, frú forseti, þegar slíkar hótanir eru settar fram af hæstv. ráðherra í þeim tilgangi að hafa áhrif á skoðanamyndun. Það er ljóst að það var ætlunin. Minnst var á þennan þjónustusamning við afhendingu Eddu-verðlaunanna síðast þar sem ítrekað var í ræðu að sá samningur kæmist í gildi þegar þingmenn væru búnir að samþykkja þetta frumvarp. Þetta er mjög alvarleg hótun þótt ég ætli ekki að ræða hana mikið meira að sinni. En mér finnst mjög langt gengið í tilraunum við að reyna að koma málinu í gegn með því að hnýta svona hótun aftan í og reyna að fá þingmenn til hika við að fara eftir eigin sannfæringu í þeirri trú að fólk muni kenna þeim um að ekki hafi fengist aukið fé í innlenda dagskrárgerð.

Vert er að taka fram varðandi réttindi starfsmanna að afskaplega litlar breytingar hafa verið gerðar á milli þess sem öll þrjú frumvörpin hafa verið lögð fram og jafnframt þegar frumvarpið hefur farið til menntamálanefndar. Hins vegar ber að hrósa menntamálanefnd fyrir að hafa a.m.k. samþykkt oftar en einu sinni að taka frumvarpið til nefndar og endurskoða það. En það verður að segjast eins og er að það eru ákveðin vonbrigði að í leiðinni skyldi ekki tekið upp bráðabirgðaákvæði II, varðandi réttindi starfsmanna. Það hefur jafnframt verið fullyrt af útvarpsstjóra, Páli Magnússyni, í fjölmiðlum að réttindi starfsfólks séu tryggð. En þegar á reyndi fyrir menntamálanefnd kom að sjálfsögðu í ljós að útvarpsstjóri gat ekki fullyrt að það svo yrði til lengri tíma en tveggja ára, þ.e. þangað til kjarasamningar renna út. Í raun höfum við ekkert í hendi né heldur núverandi starfsmenn um að kjör þeirra verði tryggð.

Það hefur spurst út að nú þegar séu menn farnir að gera einkasamninga, þ.e. útvarpsstjóri við starfsfólk, í þeirri trú að þetta frumvarp verði samþykkt. Mér finnst menn fara töluvert fram úr sér og kvíði því að menn semji hreinlega af sér. Það er einkennilegt að byrja að vinna eftir frumvarpi sem ekki hefur verið samþykkt og verður kannski aldrei samþykkt.

Ég hef farið lauslega yfir þau atriði sem helst hafa verið nefnd varðandi réttindi starfsmanna. Ég ítreka að ég hef miklar áhyggjur af því að stærsta ástæðan fyrir frumvarpinu, fyrir utan það að þeir séu að undirbúa einkavæðingu eða sölu, sé að ná eigi niður réttindum starfsmanna. Þrátt fyrir þær ítarlegu athugasemdir sem komið hafa frá BSRB, BHM, starfsmannafélögum í Ríkisútvarpinu og lögfræðingum þá hefur ekki verið tekið tillit til eins eða neins. Í því sambandi er aðeins til staðar þessi setning um að réttindi starfsmanna verði tryggð, en þau eru það engan veginn.

Ég vitnaði áðan í ræðu hæstv. menntamálaráðherra frá 17. október og ætla að leyfa mér að vitna aftur í þá ræðu, með leyfi frú forseta:

„Ég er jafnframt sannfærð um að ef frekari töf verður á afgreiðslu þessa frumvarps þá jafngildir það líka töf og seinkun á eflingu innlendrar dagskrárgerðar.“

Ef þetta er ekki hótun þá veit ég ekki hvað hótun er. Vinnubrögðin og lætin við að knýja málið fram skína alls staðar í gegn.

Frú forseti. Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1966, munu þessi atriði falla niður með samþykkt frumvarpsins: Andmælaréttur varðandi uppsögn og áminningarskylda gilda ekki lengur, þ.e. skriflegur rökstuðningur fyrir uppsögn. Það verður heldur ekki skylda að auglýsa eftir störfum þannig að útvarpsstjóri sem ráðinn er af meiri hluta á Alþingi getur ráðið þá sem honum sýnist með þeim aðferðum sem honum sýnist. Aðgangur almennings að upplýsingum um nöfn og starfsheiti umsækjenda, uppsagnarfresturinn, þagnarskyldan og skylda til að hlíta breytingum á störfum og verksviði og biðlaunaréttur þeirra sem voru ráðnir fyrir 1. júlí 1996 fellur niður.

Stéttarfélögin hafa ekki fengið að vita hverjir muni semja um kaup og kjör starfsmanna. Eru það þau stéttarfélög sem nú eru starfandi eða verða gerðir hreinir einkasamningar, líkt og þegar virðist byrjað?

Eitt af því sem veikja mun kjör starfsmanna RÚV er lakari veikindaréttur og orlofsréttur auk þess að opinberir starfsmenn eiga rétt á að tillit sé tekið til orlofs þegar lengd fæðingarorlofs er ákveðin.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa ræðu mína öllu lengri. Mín skoðun er sú og hefur ekkert breyst við hverja umræðuna á fætur annarri, hvað þá við að sjá hve lítinn áhuga menntamálanefnd sýnir á að lagfæra frumvarpið, að tilgangurinn með frumvarpinu sé tvíþættur: Hann er annars vegar verið að skerða kjör starfsmanna stofnunarinnar og hins vegar að undirbúa einkavæðingu Ríkisútvarpsins.