133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:07]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir mjög, hvað má ég segja, hressilega ræðu. Ræða hv. þingmanns fjallaði nú meira um Framsóknarflokkinn en Ríkisútvarpið og ég þakka honum auðsýndan áhuga á málefnum Framsóknarflokksins.

Í ræðu sinni nafngreindi hv. þingmaður einn mann innan Framsóknarflokksins sem væri á móti þessu frumvarpi og sagði jafnframt að sá hinn sami hefði sagt að meiri hluti framsóknarmanna væri á móti þessu máli.

Ég vil rifja það upp með hv. þingmanni að fyrir síðasta flokksþing starfaði undirbúningshópur sem mótaði stefnu okkar í málefnum Ríkisútvarpsins. Þar var samþykkt ályktun þar sem við ákváðum að breyta rekstrarforminu en það var ekkert kveðið upp úr með hvernig rekstrarformið ætti að vera.

En það eru kannski meiri fréttir fyrir hv. þm. Össur Skarphéðinsson að á miðstjórnarfundi sem flokkurinn hélt nýverið fór sá ágæti maður sem var nafngreindur hér í pontu og bað um að miðstjórnarfundurinn, þar sem saman eru komnir helstu trúnaðarmenn Framsóknarflokksins, mundi álykta gegn þessu frumvarpi. Það var ekki nokkur maður sem stóð upp og tók undir það.

Þannig að fullyrða það að meiri hluti framsóknarmanna sé á móti þessu frumvarpi er ekki rétt. Menn eru almennt ekki að ræða um þetta mál í Framsóknarflokknum. Við héldum þarna mjög öflugan miðstjórnarfund, þar var góð mæting og grasrót okkar var þar saman komin en það var enginn sem tók undir tillögu þessa manns.

Ég vil því ítreka það hér að Framsóknarflokkurinn styður þetta mál. Hann styður það að Ríkisútvarpið er ekki til sölu, hann styður eflingu Ríkisútvarpsins og auðvitað sýna umsagnir samkeppnisaðila að við erum að efla Ríkisútvarpið og munum gera það áfram.