133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[23:39]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er nú ekkert annað en hártoganir. Þegar nefndarálitið er lesið og skoðaður sá kafli þar sem fjallað er um þetta atriði sem ég vék hér að í fyrra andsvari mínu, þá er þar verið að ræða um kostunarsamning en ekki þjónustusamning.

Það er alveg ljóst að meiri hluti menntamálanefndar hvetur til þess að þeim tekjum sem Ríkisútvarpið ohf. aflar sér á grundvelli kostunarsamninga eigi frekar að verja til kostunar á dagskrárgerð sem varðar íslenska tungu, sögu og menningararfleifð en til kostunar á erlendu dagskrárefni. Ég nefni afþreyingarþætti, að því ég sé að hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur sérstakan áhuga á málinu, eins og Lost og Desperate Housewives, þótt ég efist ekki um að hv. þingmaður hafi sérstakan áhuga á þeim ágæta þætti.

Með hugmyndum okkar í meiri hluta menntamálanefndar leggjum við ekki til að sá möguleiki Ríkisútvarpsins ohf. til þess að afla sér kostunartekna verði skertur frá því sem nú er hjá Ríkisútvarpinu. En meiri hlutinn beinir því til menntamálaráðherra að í þjónustusamningi milli menntamálaráðuneytisins og Ríkisútvarpsins ohf., verði tekið upp ákvæði sem mælir fyrir um að tekjum af kostunarsamningum verði frekar veitt til dagskrárliða sem varða íslenska tungu, sögu og menningararfleifð, þar á meðal til útsendinga frá merkum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands heldur en til kaupa á erlendu afþreyingarefni.

Hafi stjórnarandstaðan misskilið (Forseti hringir.) það sem stendur í nefndarálitinu þá er í sjálfu sér (Forseti hringir.) ekkert mál að nefndarálitið verði prentað aftur.