133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[23:47]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er auðvitað furðulegur misskilningur hjá formanni menntamálanefndar og meiri hluta menntamálanefndar að það séu öðruvísi peningar sem koma inn fyrir kostun en þeir sem koma inn fyrir auglýsingar. Af hverju beinir þá ekki meiri hluti menntamálanefndar því til menntamálaráðherra að gera það í þjónustusamningi að láta auglýsingarnar eða einhverjar sérstakar auglýsingar eða auglýsingar með einhverjum ákveðnum þáttum renna í einhverja tiltekna dagskrárgerð?

Þetta er auðvitað bara della og einungis verið að slá ryki í augu fólks. Ég vona að minnsta kosti að meiri hluti menntamálanefndar hafi vit á því að sjá hve þetta er heimskuleg tillaga hjá henni. Hún á að fullnægja með einhverjum hætti gagnrýni á kostun, hinni almennu gagnrýni, ég rakti það hér fyrr í dag hvers vegna hún gerir það ekki. Hún á líka með einhverjum hætti að koma til móts við mikla gagnrýni á að það er engin takmörkun á tekjum af kostun og auglýsingum þótt hlutafélagið sé sett af stað og í raun og veru búið þannig um að það geti verið í fullri samkeppni við annað. Það gerir þessi tillaga náttúrlega ekki.

Hvað Sinfóníuna varðar þá er rétt hjá síðasta hv. ræðumanni að uppi eru einhvers konar hugmyndir um að kostendur reddi málinu milli sjónvarpsins og Sinfóníunnar og sjái til þess að sinfóníutónleikum verði sjónvarpað sem hefði átt að byrja á fyrir lifandis löngu að gera reglulega. Hitt er þó þannig að þrátt fyrir ákvæði sem við mælum með að sett verði inn í lögin um Sinfóníuna, að Sinfóníuhljómsveitin og Ríkisútvarpið geri með sér samning um flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar, þá er ekkert sem segir að sá samningur verði í raun og veru í gildi. Þetta er auðvitað bara fróm ósk. Það sem hlýtur að gerast er að Sinfóníuhljómsveitin lætur Ríkisútvarpið ekki fá hljómleika án þess að fá eitthvert endurgjald fyrir, en sú skrýtna hugmynd var uppi hjá fulltrúum Ríkisútvarpsins, og gott ef ekki menntamálaráðherra, fyrir nefndinni rétt áður en málið var slitið þaðan út í ofboði. Ef meiningin er að halda því áfram að það eigi að vera þannig, þá efast ég um það verði. Það verða alla vega mikil vandræði í kringum það, hygg ég, af hálfu Sinfóníuhljómsveitarinnar.