133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

hvalveiðar Íslendinga og markaðir í Bandaríkjunum.

[10:07]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég varð ekki vör við það að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir væri með einhverjar heimsendaspár þótt hún spyrði sjávarútvegsráðherrann út í þau alvarlegu mál sem núna eru uppi á alþjóðavettvangi vegna aðgerða Íslendinga í hvalveiðimálum. Ráðherrann var óðamála hérna en hann getur ekki talað sig frá þeim afrekum sem hann hefur ástundað að undanförnu í umhverfismálum, þ.e. þeim afrekum að brjóta niður orðspor Íslands í þeim málum á alþjóðavettvangi. Það lýtur ekki bara að hvalveiðimálunum og hvernig ráðherrann hefur staðið þar að málum, heldur lýtur það líka að því hvernig ráðherrann hefur beitt sér á vettvangi Sameinuðu þjóðanna gegn tímabundnu banni á botnvörpuveiðum á úthafsmiðum utan lögsögu þjóðríkja þar sem ríki vildu taka upp tímabundið bann til að kanna hvaða áhrif það hefði á viðkvæmt lífríki á úthöfunum að gera slíkar tilraun.

Það er ráðherrann okkar sem beitir sér gegn því þannig að sjávarútvegsráðherrann síkáti hefur afrekað ýmislegt í umhverfismálum og er á góðri leið með að fara með orðspor okkar á alþjóðavettvangi í umhverfismálum. Annars vegar getum við nefnt auðvitað þessa ákvörðun matvörukeðjunnar Whole Foods sem núna hefur ákveðið að hætta að kynna íslenskar vörur sem landbúnaðarráðherrann er búinn að verja verulegum tíma og fjármunum í að koma inn í þessa keðju og hins vegar getum við svo nefnt greinar sem hafa birst m.a. í víðlesnum dagblöðum eins og Washington Post þar sem Íslendingum hefur verið kennt um það að standa í vegi þess að menn nái árangri í friðun alþjóðlegra hafsvæða og viðkvæms sjávarlífríkis á þeim svæðum. Þetta er ekki það orðspor sem við Íslendingar viljum hafa á alþjóðavettvangi.