133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

hvalveiðar Íslendinga og markaðir í Bandaríkjunum.

[10:13]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Menn eiga viðskipti yfirleitt vegna þess að þeir græða á þeim, báðir aðilar. Þannig er það í heiminum. Ef mönnum finnst íslenskt lambakjöt gott og þeir vilja selja það í sínu landi gera þeir það. Ef þeim finnst íslenskur fiskur góður selja þeir hann (Gripið fram í: Og hvalkjöt.) og ef þeim finnst íslenskt landslag fallegt koma þeir til Íslands sem ferðamenn.

Að blanda einhverjum trúarbrögðum eða einhverri umhverfisstefnu, einhverju öðru en viðskiptum, við viðskiptin er afskaplega fjarlægt fólki, enda hefur það sýnt sig að ferðamannaiðnaðurinn hefur ekkert minnkað. Það er meira að segja til vandræða hvað hann er mikill á sumrin nú orðið. Og mér sýnist að hvalaskoðun (Gripið fram í.) hafi sjaldan sýnt eins mikinn vöxt og eftir að við hófum að veiða hval. Allar þessar hótanir sem menn eru með eru marklausar, að blanda trúarbrögðum og umhverfisvernd við viðskipti. Allt sem menn gera segir mér að þetta fái ekki staðist. Ég hef þá trú að íslenska lambakjötið sé afskaplega góð vara. Hún er reyndar kannski of dýr (Gripið fram í: En hvalkjötið?) og hvalkjötið reyndar líka, mjög góð vara, og fiskurinn íslenski er af miklum og háum gæðastaðli þannig að hann mun seljast.

Íslensk náttúra er þvílík að hún hefur enga samkeppni. Vilji fólk ekki koma til Íslands til að sjá náttúruna er það þess vandamál en ekki mitt.