133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

hvalveiðar Íslendinga og markaðir í Bandaríkjunum.

[10:15]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það má segja að eitt liggi fyrir í þessari umræðu og það er að það er ekki góður bisness að skjóta hvali, alveg sama hvað manni finnst um hvalveiðar. Það er hreinlega afleitur bisness. Af hvalveiðum fer vont orð hvernig sem menn láta á hinu háa Alþingi. Spurningin er bara: Vilja stjórnvöld horfast í augu við það eða á hvaða vegferð þau eru í þessu máli? Og það sem er náttúrlega merkilegast í þessu — og verst er að hæstv. landbúnaðarráðherra skuli ekki vera í salnum — er að markaðssetningin sem ráðherrarnir hafa borið ábyrgð á á undanförnum árum, markaðssetning ríkisstjórnarinnar, m.a. í gegnum Ferðamálaráð og með tilstyrk ríkisins, hefur auðvitað verið sú að hér sé besta lambakjöt í heimi, hér sé hreinasta náttúra í heimi og hér séu m.a. tilkippilegustu konur í heimi. (Gripið fram í.) Þetta hefur allt verið markaðssett með ráðum og dáð.

Fyrir lambakjötinu hafa farið þeir postular sem áður héldu að fegurðardrottningar gætu selt fisk. Þeir eru reyndar hættir því núna, núna selja þeir lambakjötið væntanlega með myndum af virkjunum í baksýn. Svo kemur hæstv. sjávarútvegsráðherra og heldur að það skipti ekki máli að skjóta hval. Reyndar hefur aldrei komið fram í þessari umræðu hvers vegna þurfi að gera það nema að Kristján Loftsson langaði til að ræsa bátana og að Einar K. Guðfinnsson var til í að hjálpa honum að gera það. Það liggur ekkert að baki þessari ákvörðun annað en þessi löngun tveggja manna til að ræsa báta og skjóta hval. Það liggja engar kannanir til grundvallar, það liggur ekkert til grundvallar um það hvaða hag þjóðarbúið hafi af þessu eða hvernig þetta rústi orðspor okkar á alþjóðavettvangi. Svo er bætt í með því að leggjast (Forseti hringir.) gegn banni við botnvörpuveiðum í tilraunaskyni (Forseti hringir.) á alþjóðlegum hafsvæðum.