133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

hvalveiðar Íslendinga og markaðir í Bandaríkjunum.

[10:17]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í áratugi höfum við byggt ákvarðanir okkar um nýtingu náttúruauðlinda sjávar á ákveðnum tillögum. Við höfum auðvitað ekki öll verið nákvæmlega sammála um þær tillögur og tölur sem Hafrannsóknastofnun hefur gefið út í skýrslum sínum. En Hafrannsóknastofnun hefur þó verið sú stofnun sem við höfum notast við til að leggja mat á það hvað hægt væri að veiða og hvað hægt væri að nýta á Íslandsmiðum, hvað teldist innan eðlilegra nýtingarmarka o.s.frv. Í mörg ár hefur verið lagt til af Hafrannsóknastofnun að menn skyldu fá heimild til að veiða sjávarspendýr, þar með talið hvali.

Nú er það svo, hæstv. forseti, að sumar hvalategundir eru algjörlega friðaðar og aðrar eru ætlaðar til nýtingar. Ég tel mjög eðlilegt að þær séu nýttar með skynsamlegum hætti og það sé okkur nauðsynlegt miðað við horfur okkar á lífríkinu að horfa til þess að nýta hvalina skynsamlega. Við eigum ekki að láta öðrum þjóðum það eftir að knýja okkur til annarrar niðurstöðu en að nýta náttúruna á sjálfbæran hátt.

Ein hvalategund hefur vaxið mjög mikið hér við land. Hún er búin að vera alfriðuð frá 1956, hnúfubakurinn sem er sennilega mesti afræninginn á loðnustofninum og því lífríki sem nytjastofnar okkar byggja á. Við höfum svo sem ekki tekið til veiða á honum en ég held að það hljóti að koma að því að við munum gera það í náinni framtíð.

Auðvitað vitum við að við munum fá andbyr gegn hugmyndum okkar. Það hefur alltaf legið fyrir, það er ekkert nýtt í því.