133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

hvalveiðar Íslendinga og markaðir í Bandaríkjunum.

[10:20]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alvarlegt þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra leyfir sér að gera jafnlítið úr starfi ötulla Íslendinga sem hafa aflað sér menntunar á því sviði markaðsvæðingar, að koma Íslandi á markað og kynna það með jákvæðum hætti í útlöndum. Hæstv. sjávarútvegsráðherra gerir lítið úr því starfi sem fjöldi Íslendinga hefur unnið. Stjórnvöld hafa fyrirskrifað að það eigi að markaðssetja Ísland og það eigi að markaðssetja það sem ríki sem hafi vit á því hvernig eigi að varðveita auðlindir. Það hafa menn reynt að gera í okkar þágu undanfarin 10–12 ár af mikilli meðvitund og miklum krafti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra fær að komast upp með það hér að eyðileggja allt það starf og gefa út yfirlýsingar af því tagi sem hann gerir úr ræðustóli núna, að þetta starf skipti í sjálfu sér engu máli. (Gripið fram í: Rangt.) Hann segir að hann sé í góðri trú með að þetta lagist allt saman.

Menntað fólk segir okkur öllum að þetta lagist ekki. Hvalur hefur verið markaðssettur um allan heim sem tákn fyrir umhverfisvernd. Hann er tákn fyrir meðvitund í umhverfismálum. Maður skýtur ekki táknmynd á borð við hvalinn og segir að hér sé allt í lagi, áhrifin lagist. Og það er rangt sem hv. talsmaður stjórnarþingmanna í salnum Pétur H. Blöndal segir, að umhverfisverndin skipti ekki máli. Hvað heldur líka hæstv. sjávarútvegsráðherra að þessir útgerðarmenn og fisksalar sem koma til hans séu að ráðleggja honum þegar þeir biðja um að fiskurinn okkar sé markaðssettur sem sjálfbær afurð, sé vottaður sem slík? Þeir eru að tala sama máli og Baldvin Jónsson, samtök bænda og þeir sem hafa verið að markaðssetja okkar hreinu vöru í útlöndum.

Við erum lítið 300 þús. manna samfélag. Við eigum mikið undir því að vörur okkar séu áfram á markaði (Forseti hringir.) í Bandaríkjunum og við megum ekki haga okkur eins og (Forseti hringir.) stjórnarþingmenn og hæstv. sjávarútvegsráðherra hafa hagað sér hér.