133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[11:36]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég styð þetta frumvarp. Stuðningur minn við það helgast af því að þetta er eindreginn vilji sveitarstjórnarmanna. En eins og kom fram í ræðu sem ég flutti hér um daginn deili ég ýmsum þeim efasemdum sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom með. Hann varpaði hér fram athyglisverðri spurningu: „Hvers vegna vilja sveitarfélögin fara þessa leið og hafa þennan sjóð?“ Það var af þeirri ástæðu sem ég kvaddi mér hljóðs.

Hv. þingmaður svaraði kannski sjálfum sér á eftir. Þessi sjóður mun njóta ýmissa skattfríðinda og hann hefur forréttindi umfram aðra sjóði sem starfa í hinu almenna fjármálaumhverfi. Hann þarf t.d. ekki að borga skatt. Það þýðir væntanlega að hann getur veitt lán á betri kjörum sökum þess, og reyndar annarra forréttinda líka, sem gerir það að verkum að sveitarfélögin sjá í því nokkurn ávinning að hafa hann. Það hlýtur að vera þetta. Ég deili hins vegar þeirri skoðun hv. þingmanns að það sé mjög líklegt, vegna þess að sjóðurinn nýtur forréttinda, að fjársterkir aðilar eða fjársterk fyrirtæki, hugsanlega það fyrirtæki sem hv. þingmaður nefndi, muni reyna að öðlast sem stærstan hlut í þessu.

Ég tel að hér sé um að ræða eign sem sé líkleg til að ávaxta sig ákaflega vel og verða ákaflega verðmæt í framtíðinni og hafi mikla viðskiptavild sem felst í hefðbundnum tengslum og viðskiptum sveitarfélaga við sjóðinn. Þarna er mjög góða og örugga fjárfestingu að ræða sem fjársterkt fyrirtæki, eins og Orkuveitan, kynni að hagnast verulega á sem góðum kosti.

Mig langar að spyrja hv. þingmann fyrir forvitnissakir, af því að hann hefur skoðað þetta mál ákaflega vel og er vel að sér í þessum efnum. Ef svo færi að Orkuveitan keypti, segjum fræðilega, öll hlutabréf í þessu, eða fast að því meiri hlutann, ekki allan, hver fer með atkvæðisrétt fyrir þau 85% hlutafjár (Forseti hringir.) sem Orkuveitan mætti í þessu tilviki ekki hafa í höndum sér?