133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[11:43]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í umræðu um þetta mál, 1. umr., gat ég einmitt um það að ég væri á móti þessum sjóði sem slíkum vegna þess að hann skekkti samkeppnisstöðuna með sérstökum skattaívilnunum og öðru slíku. (Gripið fram í: Þú styður frumvarpið.) Ég styð frumvarpið vegna þess að það er bót frá þeirri stöðu sem sjóðurinn starfaði í. Það stóð ekki til að leggja hann niður. Það stóð ekki til að stofna hann. Það stóð til að halda áfram sérréttindunum og forréttindunum. Ég styð því það að breyta honum í hlutafélag þannig að það komi a.m.k. séreignareiginleiki inn í sjóðinn en ekki sameignareiginleiki.

Að sjálfsögðu er ég á móti þessum sjóði, það er ekki spurning. Ég er á móti því hvernig hann skekkir samkeppnisstöðuna á lánamarkaði. Ég er á móti því að opinberir aðilar stundi fjármálastarfsemi sem einkaaðilar geta gert með ágætum árangri.

En að því gefnu að þessi sjóður starfi eins og hann er, þá er ég hlynntur því að breyta honum í hlutafélag því þá kemur krafa um arðsemi inn í sjóðinn sem er þjóðfélaginu til hagsbóta.