133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[11:45]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf kauðslegt að ganga einhverja götu en stoppa á miðri leið. Ef menn ætla sér að loka þessum sjóði sem opinberri lánastofnun og einkavæða hann, þá eigum við bara að gera það, (Gripið fram í.) og stíga skrefið til fulls.

Þróunin mun verða sú á næstu árum, að mínu mati, að fljótlega mun hefjast kapphlaup um hlutina. Sterk sveitarfélög, sem eiga sterk fyrirtæki eins og Orkuveitu Reykjavíkur og slíkt, munu hafa forustu um það. Þau munu kaupa hlutina á genginu 2, 3, 4, 5, eða eitthvað svoleiðis. Eftir tvö ár kemur fjárfestingarbankinn Straumur eða einhverjir slíkir og kaupir á genginu 50. Og þá er það sveitarfélag sem safnaði þeim til sín búið að græða óheyrilega peninga. Alveg eins og við sjáum varðandi sölu og endursölu á öðrum eignum ríkisins, eins og viðskiptabönkunum eða fiskveiðiréttindum. Þetta verður nákvæmlega sama bixið og braskið, virðulegi forseti.