133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[11:46]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel þetta frumvarp mjög óskynsamlegt og get tekið undir nánast hvert orð í mjög góðri ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem hitti naglann algerlega á höfuðið. Það gerði að sönnu einnig formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, hv. þm. Pétur H. Blöndal, fyrir sinn hatt einnig.

Hann sagðist vera lítt hrifinn af Lánasjóði sveitarfélaga vegna þess að hann skekkti samkeppnisstöðuna á markaði. Hann byggi við ívilnanir og skekkti stöðuna.

Það er svo skrýtið að með honum og fulltrúum fjármálafyrirtækja er fullkominn samhljómur einnig. Þeir eru á móti þessum sjóði á nákvæmlega sömu forsendum. En lýstu því yfir að þetta væri skref í rétta átt. Hver er sú átt?

Það er sú átt að afnema beri alla sérstöðu sjóðsins. Að hann verði eins og hvert annað fjármálafyrirtæki á markaði. Að því er stefnt með þessu frumvarpi. Því miður, að því ég hygg, óafvitandi af hálfu sveitarstjórnarmanna, því ég tel að þeir geri sér ekki fyllilega grein fyrir því hvað þeir eru að gera með þessu.

Það er verið að færa lánasjóðinn úr sameignarfyrirkomulagi yfir í séreignarfyrirkomulag þar sem eignarhlutir sveitarfélaga eru skilgreindir og er þetta gert samkvæmt hvatningu frá ríkisstjórninni. Það kemur fram í nefndaráliti að meiri hlutinn í félagsmálanefnd hefði hvatt til þessa. Sveitarfélögin telja sig, hygg ég, vera að verja sjóðinn gagnrýni frá fjármálafyrirtækjum með því að ganga í þessa átt.

En með þessari vörn er í reynd verið að veikja varnirnar. Því líkari sem þeir verða öðrum fyrirtækjum á markaði, þeim mun líklegra er að kröfur og kærur sem án efa eiga eftir að rísa frá samtökum fjármálafyrirtækja muni ná fram að ganga.

Framkvæmdastjóri sjóðsins svaraði því játandi í félagsmálanefnd þegar við tókum þetta til umfjöllunar og ég setti þessar spurningar fram. Hann lýsti því yfir að hann teldi líklegt að þegar fram liðu stundir yrðu þessi sérréttindi sjóðsins afnumin.

Finnst okkur það gott? Er það ekki gott að í landinu sé starfandi sterkur samtryggingasjóður sveitarfélaganna sem án efa styrkir, og hefur styrkt stöðu smárra sveitarfélaga? Finnst okkur ekki gott að hafa slíkt fyrirkomulag? Viljum við veikja það og grafa undan því? Nei, ekki vil ég gera það.

Síðan er ákvæði inni í sjóðnum um að hlutirnir geti gengið kaupum og sölum. Það eru að vísu tímatakmarkanir. Þetta getur ekki gerst fyrr en eftir 2009, held ég að hafi verið. En eftir þann tíma geta sveitarfélögin selt.

Þá spurði hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar: Munu menn gera það ef eignin er arðvænleg og góð? Já, vegna þess að fátæk sveitarfélög munu hugsanlega freistast til þess að láta hlut sinn af hendi ef vel er í boðið. Á þá að svipta þau forræði yfir eigin málefnum? kann þá að vera spurt á móti.

Ég tel heppilegt að hafa þetta fyrirkomulag þannig að hlutirnir verði ekki markaðsvara og menn standi hreinlega ekki frammi fyrir slíkri freistingu, og ekki heldur hin sveitarfélögin sem hér eftir, án nokkurs vafa munu fara að reisa annars konar kröfur en gerðar hafa verið til þessa. (Gripið fram í: Það vitum við.) Reisa annars konar kröfur um arðsemi lánveitinga vegna þess að það er smám saman verið að færa alla hugsun út á þessa braut. Þannig að hér takast á í reynd sérhyggja og félagshyggja. Þetta frumvarp kristallar átök af þeim meiði.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt. Ég ætlaði ekki að gera annað en að koma þessum sjónarmiðum á framfæri. Ég tel það vera mjög misráðið að samþykkja þetta frumvarp og ég tel að sveitarfélögin sem hafa lagt blessun sína yfir þetta séu að stíga rangt skref með því. Ég þykist vita að gott eitt vaki fyrir þeim. En ég held að þetta sé mjög óhyggilegt og leggst gegn því að við samþykkjum þetta frumvarp.