133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[11:56]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikilvægt að halda því til haga að á 131. löggjafarþingi var lögunum um Lánasjóð sveitarfélag breytt og þar var raunverulega verið að stíga fyrsta skrefið að þeirri breytingu sem við erum núna að gera á lánasjóðnum. Markmiðið með þeirri breytingu sem þá var gerð var að laga rekstur sjóðsins, eftir því sem kostur var, að starfsskilyrðum fjármálafyrirtækja á fjármálamarkaði.

Þá var skrifað nefndarálit þar sem beinlínis var lagt fyrir Lánasjóð sveitarfélaganna og sveitarfélögin í landinu, að gera breytingar. Félagsmálanefnd taldi mikilvægt að eignaraðild að sjóðnum verði skilgreind nákvæmar en nú er gert og eignarhlutur hvers sveitarfélags fyrir sig verði skilgreindur.

Þetta var í nefndarálitinu og undir það álit skrifuðu allir. Enginn með neinum fyrirvara og Ögmundur Jónasson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi. Er hann samþykkur þessu áliti? Nú er ég, virðulegi forseti, með leyfi forseta, að vísa í álit nefndarinnar.

Það er auðvitað mjög mikilvægt að halda þessu til haga og eins að þetta er vilji og ósk sveitarfélaganna, allra í landinu sem að hluta til eru að framkvæma hér vilja Alþingis sem birtist í nefndarálitinu.

Ég held að ekki sé mikil hætta á því að farið verði að selja hér eignarhluti úr þessum sjóði. Það er ástæða til þess að benda á að t.d. hefur Reykjavíkurborg aldrei verið að sækja eftir lánum í þennan sjóð. Þetta hefur fyrst og fremst gagnast smærri og vanmegnugri sveitarfélögunum og tilgangur lánasjóðsins er einmitt að geta veitt lán á hagstæðum lánakjörum til þessara vanmegnugu sveitarfélaga en þau geta fengið á markaði.

Reykjavíkurborg er ekki í vandræðum með að fá hagstæð lán á markaði en það hafa hin minni sveitarfélög verið. Þau hafa verið í vandræðum með það. Þetta er þá fyrst og fremst til hagsbóta fyrir þau sveitarfélög.

Ég er ósammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að það sé verið að afnema einhver félagsleg og byggðarleg hlutverk lánasjóðsins og bið hann að rökstyðja það nánar en hann (Forseti hringir.) gerði í máli sínu áðan.