133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[12:03]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er á móti þessu frumvarpi. Ég styð þetta frumvarp. Ástæðan er sú að þessi sjóður er í eigu sveitarfélaganna og þau hafa fullan rétt á því að ráðstafa honum eins og þau vilja. Það liggur fyrir skýr vilji þeirra í þessu máli og það ræður afstöðu minni. Ég deili hins vegar ákveðnum efasemdum sem fram hafa komið um framtíðarþróun þessa sjóðs. Röksemdin sem kemur fram í frumvarpinu og hæstv. ráðherra flutti hér við 1. umr. er sú að það eigi að færa lánasjóðinn meira til samræmis við fjármálaumhverfið eins og það er í dag. Í þessu felst ákveðin þversögn þegar maður skoðar frumvarpið. Þá kemur í ljós að sjóðurinn nýtur skattfríðinda. Með öðrum orðum verður hann ekki að starfa í samræmi við hinar almennu leikreglur á markaðnum.

Þetta þýðir að hann nýtur ákveðinna forréttinda og hann er eftirsóknarverður og ákjósanlegur kostur. Hann nýtur ákveðinna samkeppnisyfirburða yfir aðrar lánastofnanir sem gjarnan vildu njóta þeirra viðskipta sem sjóðurinn hefur.

Þá held ég að það liggi alveg í augum uppi að þessi gjörningur, þessi þáttur, á umhverfi þessa lánasjóðs feli í sér samkeppnishömlun gagnvart öðrum stofnunum á markaði. Ég er alveg klár á því að í framtíðinni munu þeir sjóðir og þær fjárfestingarstofnanir sem gjarnan vildu hafa þessi viðskipti láta á það reyna gagnvart eftirlitsaðilum sem við notum hér sem eins konar umferðarlöggur í efnahagslífi okkar hvort þetta stenst.

Ég er þeirra skoðunar að þegar fram í sækir muni þeim verða ágengt og niðurstaðan verði líklega sú að þetta standist ekki. Þar með er nauðsynlegt, hygg ég, í framtíðinni að málum verði skipað algerlega til samræmis við markaðinn og þar með eru þessi sjóður og sveitarfélögin búin að missa þessa leið til að fá hagstæðari lán. Það óttast ég.

Sömuleiðis er ég mjög sammála þeirri framtíðarsýn sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson dró hér upp um það hvernig líklegt er að þetta verði eftirsóknarverður fjárfestingarkostur og að verð hluta muni hækka mjög.

Ég tel þess vegna líklegt, og bara sagan sýnir það, að þessi sjóður verði kjörinn til að festa fé öflugra sveitarfélaga eða fyrirtækja. Ég segi það alveg hreinskilnislega að ef ég væri borgarstjórinn í Reykjavík eða stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur mundi ég líta á þetta sem mjög vænlegan fjárfestingarkost og festa fé í þessu því að ég tel líklegt að þegar fram líða stundir muni verðið hækka verulega. Aðrar fjármálastofnanir munu taka að slægjast eftir þessum sjóði og það mun myndast þrýstingur á að breyta lögum enn frekar þannig að á næsta hálfa áratugnum eða áratugnum öllum verðum við hér, eða þau okkar sem enn verða hér starfandi, upptekin við það einhvern vetrardag að breyta lögunum þannig að hægt verði að koma þessu í lóg á almennum markaði. Þá verða hlutirnir mjög dýrir.

Þetta held ég að sé líkleg þróun og þá gæti auðvitað farið svo að sveitarfélögin ættu ekki lengur kost á þeim ágæta möguleika sem þau hafa í dag. Hugsanlega verður það svoleiðis ef stofnanir á lánamarkaði yfirtaka þetta hlutverk. Sjóðurinn er dýrmætur vegna þess að hann hefur góða og mikla viðskiptavild.

Ég tek undir þær áhyggjur sem hér hafa komið fram. Mig langar að spyrja hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, formann félagsmálanefndar, hvort hún og nefndin hafi ekki velt fyrir sér þessari þróun eða hvort alfarið hafi ráðið sú eindregna afstaða sveitarstjórnarmanna að breyta þessu yfir í opinbert hlutafélag með þessum hætti.

Þær upplýsingar sem hv. þm. Ögmundur Jónasson færði hér inn í umræðuna úr samræðu nefndarinnar við forstjóra sjóðsins finnast mér benda til að fleiri en bara þingmenn líti svo á að þetta verði þróunin. Svo virðist sem þeir sem stýra sjóðnum séu sama sinnis. Þá veltir maður því auðvitað fyrir sér hvort ekki verði með einhverjum hætti gert tiltölulega fljótt áhlaup á sjóðinn, annars vegar varðandi forréttindin sem hann nýtur og hins vegar varðandi það að setja hann út á almennan markað.