133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[12:08]
Hlusta

Frsm. félmn. (Dagný Jónsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir stuðninginn við þetta mál sem einnig kom fram við 1. umr. um málið. Ég get svarað hv. þingmanni þannig að það er alveg ljóst að afstaða sveitarstjórnarmanna og sveitarfélaganna í landinu, sú eindregna ósk þeirra allra um að fara þessa leið, réði auðvitað miklu um framgang þessa máls. Ég fullyrði að hún réði öllu um það.

Þegar staðan er þannig að félagsmálanefnd beindi á sínum tíma þeirri ósk til þeirra að endurskoða rekstrarform sitt og þeir brugðust við því, lögðu í það mikla vinnu og komu með þessa niðurstöðu, höfum við ekki miklar forsendur til að hafna því og líka með því fororði að í lögunum er auðvitað tryggt áfram þetta félagslega hlutverk sjóðsins sem ég tel vera gríðarlega mikilvægt.

Þetta er svar mitt til hv. þingmanns. Ég get líka upplýst hann að þau mál sem hann ræddi hér um voru viðruð varðandi eignarhluta sveitarfélaganna í nefndinni og menn eru ekki sammála um það hvort hér verði mikil uppboð eða ekki. Þeir sem til þekkja telja að svo verði ekki og hér hafa menn fleygt því fram og spáð því að Orkuveita Reykjavíkur muni eignast þetta allt saman að lokum. Ég ætla ekki að gerast spámaður í því máli en treysti vel þeim góðu mönnum sem þar stýra fyrirtækinu og tek undir orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að Reykjavíkurborg hefur ekki mikið skipt sér af lánasjóðnum hingað til.