133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[12:10]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla bara að hafa hér örfá orð um þetta frumvarp um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur gert mjög vel grein fyrir hinni almennu afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til þess að setja félagslega sjóði eða fyrirtæki í einkavæðingarferli eins og hér er verið að gera með Lánasjóð sveitarfélaga.

Það hefur ekkert komið fram í sjálfu sér sem hamli sjóðnum í þeim verkefnum sem hann nú er með gagnvart sveitarfélögunum. Ekki neitt. Það hefur ekkert komið fram í umræðunum hér sem sýnir fram á að hann geti ekki sinnt því hlutverki sem honum hefur verið ætlað lögum samkvæmt sem lánasjóður þessara sveitarfélaga.

Áfram er það undirstrikað í þessum lögum að hann eigi þetta félagslega hlutverk og látið að því liggja að það eigi að vera óbreytt, sem það getur reyndar ekki verið í breyttum lögum.

Áfram er líka sagt hér að lántökur sveitarfélaganna séu með ríkisábyrgð, með óbeinni ríkisábyrgð. Ef sveitarfélögin geta ekki staðið í skilum með lánin er það ríkissjóður sem hleypur undir bagga þó að hann eigi síðan eðlilegan endurkröfurétt á viðkomandi sveitarfélag.

Þegar svo á hinn bóginn er talað um að það eigi að búa þessum sjóði umhverfi sem líkast er á einhverjum almennum samkeppnismarkaði er hann bara ekkert að fara á samkeppnismarkað. (PHB: Hann er þar.) Nei, hann er þar ekki. Það er rangt hjá Pétri H. Blöndal sem heldur þessu fram. Í hans huga er samkeppni bara hinn almenni hnefaréttur. Það er ekki svo með þennan sjóð. Hann hefur ekki neinn hnefarétt. Það er bara ekki rétt. Hann hefur það ekki og á ekki að hafa.

Hann er sjóður sem öll sveitarfélög eiga að geta sótt í til skilgreindra verka og í sjálfu sér lagt faglegt mat á þær umsóknir og annað því um líkt eins og hefðbundið er en það er ríkissjóður sem ber ábyrgð á greiðslum í raun ef illa fer.

Það er jafnfáránlegt að hálfeinkavæða sjóði með ríkisábyrgð. Ef maður einkavæðir sjóði, fyrirtæki og þjónustustofnanir og telur að markaðurinn geti betur stýrt því ferli, sem getur vel verið í mörgum tilvikum, látum við ekki vera ríkisábyrgð á markaðsvæddum stofnunum. Það er bara svo einfalt.

Hér eru menn með hálfkveðnar vísur greinilega að búa sjóðinn undir einkavæðingarferli en samt á hann að halda félagslegu hlutverki sínu. Ég tek alveg undir orð hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem enn heldur hér uppi félagshyggjutóni Framsóknarflokksins sem hann er greinilega að verða tiltölulega einn eftir með í þingmannaliði og forustu flokksins. Framsóknarflokkurinn gengur hér allra flokka harðast fram í að einkavæða eða setja í einkavæðingarferli almannaþjónustufyrirtækin, hvort sem það eru raforkumálin eða Landssíminn eða Ríkisútvarpið — að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið, setja það á einkavæðingarvagninn — þá er það eins og að það sé Framsóknarflokkurinn hér sem gengur harðast fram í þessari einkavæðingu. Fyrir mér sem gömlum og góðum samvinnumanni er það dapurlegt. Ég verð bara að segja það.

Ef ég vík aftur að þessu frumvarpi tel ég t.d. að bráðabirgðaákvæði III kveði á um að ekki megi fara fram viðskipti með hluti í félaginu fyrr en 1. janúar 2009. Þá má selja þá. Að óbreyttum lögum má selja þá, bæði milli sveitarfélaga og til fyrirtækja í eigu sveitarfélaga.

Ég tel að þessu ákvæði sé fullkomlega ofaukið. Ef því verður breytt þannig að sveitarfélögin megi selja þessa hluti getum við gert það með lögum hér á Alþingi en við eigum ekki að setja sjálfvirka einkavæðingu inn í svona lög.

Þessu vildi ég bara koma á framfæri, frú forseti. Ég styð það að sjálfsögðu að sveitarfélögin eigi þennan lánasjóð, að hann verði sem öflugastur og að þau geti sótt í hann fjármagn til verkefna sinna. Sjálfsagt þarf að huga að umgjörð hans en það er jafnmikilvægt að þessi sjóður sé eign sveitarfélaganna á þeim jafnréttisgrunni sem mögulegt er og að ekki sé hægt að versla með einstaka hluti.

Við þekkjum alveg hvað gerist. Ef eitt sveitarfélag lendir í vandræðum kemur sjálfsagt skipun frá félagsmálaráðuneytinu: Finnið allar eignir sem þið getið selt. Sveitarfélag lendir í greiðsluvandræðum og því er gert að finna allar eignir sem það getur selt: Þarna eigið þið eign í Lánasjóði sveitarfélaga. Seljið hana.

Við þekkjum að Orkubú Vestfjarða var tekið af sveitarfélögunum með þessum hætti, ríkið krafðist þess að sveitarfélögin seldu orkubúin sín. Sama var með Rafveitu Sauðárkróks, ríkið krafðist þess að Sveitarfélagið Skagafjörður, sem þá var undir stjórn framsóknarmanna, seldi Rafveitu Sauðárkróks til að létta á skuldum.

Ríkið hefur þetta tangarhald á sveitarfélögunum. Það munar ekki mikið um að krefjast þess að sveitarfélagið selji hluti sína í þessum nýja lánasjóði ef svo ber undir.

Frú forseti. Ég tek undir mjög sterk varnaðarorð gagnvart því sem hér er verið að gera með lánasjóðinn. Við þurfum ekki að heimila það að þessir hlutir séu markaðsvara. Við getum breytt lagaumgjörðinni þannig, gott og vel, ef menn vilja heldur fara inn á þetta hlutafélagaform, þótt ég sé ekki sammála því að þess þurfi, en þá eigum við líka að setja í lögin og láta standa þar að þessir hlutir skuli ekki ganga kaupum og sölum.