133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

fæðingar- og foreldraorlof.

428. mál
[12:30]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara vegna þess að ég fékk ekki svör við því hver væri tilgangurinn með umönnunargreiðslum. Ég hef spurt að þessu áður og ég spurði að því aftur hvort þær væru ætlaðar til að bæta fólki tekjutap, foreldrum veikra barna, eða hvort þær væru ætlaðar til að endurgreiða fólki kostnað. Ég hef ekki fengið svör við því og kom fram á fundi nefndarinnar að það hafi ekki verið kannað.

Þetta er mjög mikilvægt í þessu samhengi vegna þess að ef um er að ræða greiðslur vegna tekjutaps, vegna þess að foreldrarnir geta ekki sinnt fullri vinnu vegna umönnunar barnsins, þá ættu þær greiðslur ekki að fara saman því fæðingarorlofsbæturnar eru einmitt til að bæta fólki tekjutap og þá er verið að bæta það á tveim stöðum og úr tveim áttum. Ef um er að ræða kostnað foreldra á þetta ekki við og þá ætti að greiða þessar bætur saman. Mér finnst mikilvægt að þetta liggi fyrir þannig að menn sjái í gegn hvað er verið að bæta.

Ef umönnunarbætur eru hins vegar til að standa undir kostnaði þá veltir maður þeirri spurningu upp hvort göt séu einhvers staðar í velferðarkerfinu þannig að fólk lendi í þvílíkum kostnaði við það ef börn verða veik, að til þess þurfi mánaðarlegar greiðslur að þessari fjárhæð sem er allt upp í 93 þús. kr. á mánuði. Maður veltir fyrir sér hvort ekki þyrfti að skoða það hvort eitthvað sé að, hvort fólk þurfi að borga fyrir spítalavist eða þurfi að borga kostnað hér og þar og hvort sjúkrakortin sem veitt eru dugi ekki til að takmarka þann kostnað o.s.frv. Þetta finnst mér mjög mikilvægt.

Það kemur ekki fram í nefndaráliti en ég ræddi það í nefndinni hvort ekki hefði verið eðlilegt að bjóða út rekstur Fæðingarorlofssjóðs. Það er einmitt dæmigert verkefni sem á mjög vel heima í höndum einstaklinga og ég er nærri viss um að það hefði mátt lækka kostnaðinn með útboði og þá hefðu opinberir aðilar getað boðið líka í, Tryggingastofnun sem og aðrir.