133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

fæðingar- og foreldraorlof.

428. mál
[12:46]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þm. Jón Bjarnason erum nú sammála um meira en bara um Hólaskóla einan. Svarið við spurningu hans er já. Ég tel að það sé góðra gjalda vert að reyna að byggja upp þá starfsemi sem ríkið er að setja á fót úti á landi.

Ég held sérstaklega að þjónustustarf af þessum toga þar sem verið er að vinna með upplýsingar og vinna úr þeim og skrá eins og í þessu tilviki, einstaklinga, tekjur og reikna út hvaða bætur þeim ber, sé tilvalið að vista með þeim hætti annars staðar en á því sem hv. þingmaður kallar miðlægar stofnanir.

Nú er það svo að tæknin hefur gjörbreytt umhverfi og það á ekki að þurfa að hafa störf hneppt saman innan einnar stofnunar. Stofnun getur starfað á mjög mörgum stöðum á landinu án þess að það skorti nokkuð upp á verkstjórn og eftirlit með góðu verklagi.

Ég er þeirrar skoðunar að þegar ég og hv. þm. Jón Bjarnason hugsanlega verðum hér í stjórnarmeirihluta að loknum kosningum þá eigi t.d. að fara yfir þau störf sem innt eru af höndum af hálfu ríkisins og kanna hvert þeirra væri hægt að skilgreina þannig að þau hafi enga sérstaka staðsetningu og síðan eigi að nota starfsmannaveltuna en ekki uppsagnir til þess að kanna hvort hægt sé að koma tiltölulega viðamiklum einingum fyrir annars staðar en innan þessara stofnana. Ég held að það mundi líka hjálpa landsbyggðinni mjög.

Ég tel reyndar að það ætti ekkert að reyna endilega að koma þeim með þeim hætti út á landsbyggðina heldur ætti að skilgreina þau sem störf án staðsetningar og þá gætu sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar eftir atvikum sóst eftir því að vinna þau störf.

Að öðru leyti gleður það mig að í nefndarálitinu er einmitt tekið undir það sjónarmið sem ég var með hér uppi áðan um (Forseti hringir.) gætt hefði of mikillar tregðu hjá fjárveitingavaldinu til að tryggja þessa nýju starfsemi sem nú er flutt (Forseti hringir.) á Hvammstanga.