133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

ummæli þingmanns um þinghlé.

[13:35]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Samkvæmt þingsköpum er einungis heimilað að tala um störf þingsins í upphafi fundar. Nú koma hádegisfréttir ekki fyrr en fundur var löngu settur. En ég vil spyrja hæstv. forseta hvort ekki sé tilefni til að heimila nú umræður um störf þingsins til þess að ég geti komið fram athugasemdum vegna þeirrar undarlegu ræðu sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson flutti Ríkisútvarpinu til þess að skýra af hvaða sökum utanríkismálanefnd hefur lagt áherslu á að heimsækja Eystrasaltsríkin. Eins og hæstv. forseta er kunnugt hefur verið vaxandi og mjög mikil vinátta milli Íslendinga og Eystrasaltsríkjanna. Eystrasaltsríkin hafa lagt mikla og ríka áherslu á gott samstarf við Norðurlönd og óskað eftir nánara samstarfi á milli þinganna síðan Eystrasaltsríkin urðu sjálfstæð. Sú ferð sem nú er fyrirhuguð af utanríkismálanefnd er einmitt í þeim anda sem góð samvinna þinganna í Eystrasaltsríkjum og á Íslandi hefur verið, góð samvinna forseta þinganna, ríkisstjórna og einstakra þingmanna.

Þess vegna vil ég spyrja hvort ekki sé ástæða til að heimila nú umræður um störf þingsins til þess að við getum tekið þetta mál upp og athugað hvort það sé einungis sér til skemmtunar sem Alþingi leggur áherslu á vaxandi umsvif í utanríkisþætti sínum, sem Alþingi leggur áherslu á að Íslendingar eigi að hafa sömu tækifæri og þingmenn erlendra ríkja til þess að umgangast, fræðast og efla kynni þjóða og þinga.