133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

upplýsingar og samráð í fyrirtækjum.

57. mál
[14:07]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Á þskj. 524 flyt ég breytingartillögu við þetta frumvarp ásamt hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni og Ögmundi Jónassyni en breytingartillagan snertir gildissvið frumvarpsins. Í frumvarpinu er kveðið á um að það nái einungis til fyrirtækja með a.m.k. 50 starfsmenn, og til bráðabirgða fram til 1. mars 2008 á það einungis að ná til fyrirtækja með fleiri en 100 starfsmenn. Þessi leið nær því aðeins til um 4–5 þús. launþega af um 160 þús. á vinnumarkaði.

Breytingartillaga okkar felur í sér að lögin taki til fyrirtækja með 20 starfsmenn eða fleiri eins og ASÍ hefur lagt til, en til bráðabirgða fram til 1. mars 2008 leggjum við til að lögin nái til fyrirtækja með 50 starfsmenn. Jafnframt leggjum við til að ekki sé eftir geðþótta vinnuveitenda hægt að víkja frá ákvæðum nokkurra greina í frumvarpinu eins og lagt er til.

ASÍ og Samtök atvinnulífsins náðu ekki saman um þetta mál þótt reynt hafi verið í einhver ár og er þetta því ekki nein málamiðlun milli þessara aðila, heldur er valin sú leið að nýta alla fresti til að innleiða þessa tilskipun og fara þá leið sem skemmst gekk. Því er um algjöran lágmarksrétt launafólks að ræða til upplýsinga og samráðs. Raunar er svo skammt gengið og ákvæðin svo galopin og sett í hendur atvinnurekenda hvort og hvernig verði af framkvæmd að hægt er að efast verulega um gildi þessa máls fyrir launafólk. Það er þó eftir því hvernig launafólki verða kynnt þau réttindi og skyldur sem felast í frumvarpinu og hvort aðilum vinnumarkaðarins tekst í frjálsum samningum að kveða nánar á um markvissari samráð við launþega.

Hér er þó stigið fyrsta skrefið í átt til atvinnulýðræðis sem við í Samfylkingunni höfum lagt áherslu á, m.a. með flutningi mála hér á Alþingi. Í því efni stöndum við langt að baki öðrum þjóðum sem í langan tíma hafa búið við virkt atvinnulýðræði. Þó að hér sé aðeins stigið hænufet í þá átt með þessu frumvarpi munum við engu að síður styðja málið í trausti þess að hér sé stigið fyrsta skrefið, þótt smátt sé, í þá átt að koma á virku atvinnulýðræði.