133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[14:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er mjög umhugað um að tryggja framtíð Lánasjóðs sveitarfélaga. Hann er félagslegur sjóður og hann er sameignarsjóður. Með þessu frumvarpi er verið að færa hann yfir í séreignarform. Hlutverk hans verður eftir sem áður hið sama og hann mun eftir sem áður njóta ákveðinna sérréttinda. Hann er t.d. undanskilinn skatti. Við óttumst að með þessari breytingu verði varnir sjóðsins veiktar gagnvart bönkum og fyrirtækjum á fjármálamarkaði sem vilja að þessi sjóður sitji við sama borð og öll önnur fjármálafyrirtæki í landinu. Þess vegna getum við ekki stutt þetta frumvarp.