133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

lögheimili og skipulags- og byggingarlög.

220. mál
[14:19]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Efnislega er verið að taka afstöðu til þess fyrir framtíðina að fólk geti ekki skráð lögheimili sitt eða búið í svokölluðum frístundabyggðum. Nú er það svo að búsetuhagir fólks breytast eftir aldri þess og ævi og það sem áður voru kölluð sumarhús og eingöngu til þeirra nota, kannski vegna þess að þau voru ekki nægilega einangruð eða aðrar aðstæður ekki fyrir hendi, teljast nú heilsárshús. Ég tel enga sérstaka skynsemi í því að lögfesta það að fólki sé meinað að skrá lögheimili sitt í slíkum húsum ef það vill búa þar. Þess vegna greiði ég ekki atkvæði með þessu máli.