133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

símhleranir.

[14:36]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Þetta er líklega í fimmta skipti sem rætt er um hlerunarmál sérstaklega á yfirstandandi haustþingi. Hér hafa verið fyrirspurnir um hleranir á símum alþingismanna, umræður um mögulega leyniþjónustustarfsemi á vegum stjórnvalda og rannsóknir á meintum hlerunum almennt. (Gripið fram í: Og nú hleranir Steingríms.)

En það sem skiptir kannski máli og ég get tekið það skýrt fram að stefna Framsóknarflokksins er skýr í þessu máli. Við höfum alltaf lagt áherslu á að öll gögn kæmu upp á borðið í þessum efnum.

Fyrsta skrefið í þeim efnum var þingsályktun sem Alþingi samþykkti 3. júní síðastliðinn, fyrir sex mánuðum. Það er gert ráð fyrir að sú nefnd skili skýrslu um störf sín eigi síðar en í árslok 2006. Það er ekki langt í það.

Sú nefnd á að annast skoðun gagna sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi á árunum 1945 til 1991 sem eru í vörslu opinberra aðila og ákveða frjálsan aðgang fræðimanna að þeim.

Í framhaldi af þessu setti Alþingi lög 4. október 2006 (Gripið fram í.) þar sem tekið var fram að nefndin skyldi hafa frjálsan aðgang að öllum gögnum í vörslu stjórnvalda sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi á árunum 1945 til 1991.

Ég tel að þetta mál sé í eðlilegum farvegi og það sé rétt að bíða eftir að sú nefnd sem er nú að störfum ljúki störfum og síðan á Alþingi og við hv. alþingismenn að taka ákvörðun um næstu skref og ég tel mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir allir nái saman um tillögur í þeim efnum. Í því sambandi útiloka ég ekkert.