133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

ferð utanríkismálanefndar til Eystrasaltsríkjanna.

[15:03]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég held að öllum sé ljóst að störf þingsins ganga fyrir hér, störfin við að ljúka frumvörpum sem hér liggja fyrir. Það er mjög eðlilegt að semja um það hvernig mál ganga hér fram. Það gerum við alla jafna. Mörgum þeirra frumvarpa sem við fjöllum um hér og snúa meðal annars að skattamálum, málefnum aldraðra, almannatryggingum, fæðingar- og foreldraorlofi, ættleiðingarstyrkjum og fleiri mál, þurfum við auðvitað að ljúka fyrir áramót og frumvörpin miðast við það. Því er mjög eðlilegt að við ákveðum í samvinnu hvernig við ljúkum hér þingstörfum.

Hér liggur starfsáætlun fyrir þinginu þar sem gert var ráð fyrir því að við lykjum störfum í dag. Okkur tekst það reyndar ekki fyrr en á morgun. Látum það nú vera. Við ætlum að koma saman eftir áramót og ljúka því frumvarpi sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson gerði að umtalsefni og sagðist vilja klára fyrir jól. Það frumvarp hefur ekki í sér dagsetningu sem miðast við að það þurfi að klárast um áramót. Þess vegna er algjörlega augljóst mál að það var eðlilegt að semja um lokin á þingstörfunum með þessum hætti.

Það að einn flokkur, Framsóknarflokkurinn, hafi viljað halda áfram fram að jólum og kannski milli jóla og nýárs má vel vera. En það kom alla vega ekki fram í þeim umræðum sem við áttum við formann Framsóknarflokksins að þannig vildi hann haga málum.

Mér finnst því þetta mjög undarlegur málflutningur hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar og er þá betra að hafa það sem sannara reynist í málflutningi manna hér.