133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

ferð utanríkismálanefndar til Eystrasaltsríkjanna.

[15:05]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það var með nokkurri furðu að ég hlustaði á hádegisfréttirnar í Ríkisútvarpinu í dag þar sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson lýsti því hvernig starfslok hér á þinginu bæri að núna fyrir jólin. Reyndar er kannski óþarfi að verða hissa, ef maður horfir á hvernig þessi hv. þingmaður hefur starfað hér á þinginu þann stutta tíma sem hann hefur komið hér inn, þó að hann fari í fjölmiðlum með rangt mál og fari mjög frjálslega með staðreyndir því að akkúrat þannig hefur hv. þingmaður unnið á þingi þann tíma sem hann hefur verið hér.

Við hljótum að velta því fyrir okkur hvað hv. þingmanni gangi til þegar hann nafngreinir félaga sína, þingmenn, í útvarpsfréttum og hreint og klárt ber upp á þá ósanna hluti. Því hlýtur hann sjálfur að svara hér á eftir. Sannleikurinn og staðreyndir virðast vera aukaatriði þegar kemur að því hjá þessum hv. þingmanni að flytja mál sitt.

Oft horfir maður upp á aumkunarverðar tilraunir þingmanna til að vekja athygli á sjálfum sér í fjölmiðlum. Oftast reyna þó þingmenn að halda sig við sannleikann og staðreyndir. Það sem þessi hv. þingmaður gerði í fréttunum í dag var afar aumkunarvert því að hann reyndi hvorki að halda sig við sannleikann né staðreyndir í málinu heldur fór algjörlega með fleipur frá upphafi til enda.

Svo veltum við þingmenn því fyrir okkur sem hér sitjum hvernig standi á því að virðing Alþingis virðist þverrandi meðal kjósenda og meðal almennings. Ég held að við vitum betur nú svör við því en oft áður og ég held að virðing Alþingis eigi enn eftir að minnka ef fleiri þingmenn eins og hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson koma á þing.