133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

ættleiðingarstyrkir.

429. mál
[15:21]
Hlusta

Frsm. félmn. (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um ættleiðingarstyrki. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti.

Í frumvarpinu er kveðið á um rétt kjörforeldra sem ættleiða erlent barn eða börn í samræmi við lög um ættleiðingar til að sækja um fjárstyrk úr ríkissjóði. Styrkurinn nemur 480.000 kr. en sú fjárhæð skal sæta endurskoðun í tengslum við afgreiðslu fjárlaga á tveggja ára fresti. Þá er gert ráð fyrir að hafi kjörforeldrar ættleitt fleiri en eitt barn samtímis skuli fjárhæðin hækka um 20% fyrir hvert barn umfram eitt.

Meiri hluti nefndarinnar álítur að ekki sé rétt að einskorða veitingu ættleiðingarstyrks við þau tilvik þegar ættleiðing fer fram fyrir milligöngu löggilts ættleiðingarfélags eins og gert er í 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins og er því lagt til að umrætt ákvæði verði fellt brott. Eigi að síður vill meiri hlutinn að skýrt komi fram að alþjóðlegar fjölskylduættleiðingar falli utan gildissviðs frumvarpsins og því er jafnframt lagt til að við 1. gr. frumvarpsins bætist nýtt ákvæði þess efnis.

Þá telur meiri hlutinn ástæðu til að árétta að í skýrslu starfshóps um ættleiðingarstyrki frá nóvember 2006 sem frumvarpið byggist á er gert ráð fyrir að samfara frumvarpinu verði gerðar breytingar á A-lið 30. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, í þeim tilgangi að sá hluti styrksins sem sannanlega er varið til að standa undir kostnaði af ættleiðingu barns komi til frádráttar tekjum.

Meiri hluti nefndarinnar mælir með að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali

Hv. þm. Pétur H. Blöndal stendur ekki að áliti þessu.

Hv. þingmenn Einar Oddur Kristjánsson og Magnús Þór Hafsteinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Dagný Jónsdóttir, Guðjón Hjörleifsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Helgi Hjörvar og Birkir J. Jónsson.

Ég vil að lokum þakka hv. nefndarmönnum í félagsmálanefnd fyrir að greiða fyrir þessu máli þannig að það afgreiðist nú fyrir jól. Við höfðum ekki langan tíma til að fjalla um það en það var mikil samstaða meðal nefndarmanna um málið og það er mikil ánægja og gleðiefni að það skuli afgreiðast nú frá Alþingi.