133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

ættleiðingarstyrkir.

429. mál
[15:27]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til þess að fagna því að nú erum við um það bil að samþykkja ættleiðingarstyrki til kjörforeldra hér á landi. Það hefur tekið tímann sinn að koma þessu í gegn síðustu missirin og ég held að það sé ekki á neinn hallað þó að ég nefni nafn hv. þingkonu Guðrúnar Ögmundsdóttur. Hún hefur fylgt þessu mjög vel eftir síðustu missirin hér á hinu háa Alþingi og síðan með jákvæðri og góðri umfjöllun í félagsmálanefnd undir stjórn hv. þingkonu Dagnýjar Jónsdóttur, Framsóknarflokki, og með atbeina félagsmálaráðherra erum við loksins að fá hér í gegn að tryggja jöfn kjör og jafnræði kjörforeldra á við aðra íslenska foreldra.

Um það bil 500 Íslendingar hafa verið ættleiddir erlendis frá, u.þ.b. 500 manns, og þeim mun að sjálfsögðu fara fjölgandi á næstu missirum og árum. Það er ekki nema sjálfsagt að ríkið komi til móts við þá foreldra eins og aðra foreldra þegar börn koma í heiminn eða þegar börn koma í fjölskylduna. Ég vil lýsa mikilli ánægju minni með að þetta skuli loks vera komið hingað inn og til afgreiðslu og ég verð að segja það, frú forseti, að stundum eru það málin sem mestu máli skipta fyrir fólkið og fjölskyldurnar í landinu sem kannski taka minnstan tíma hér í ræðustólnum.