133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[16:55]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum.

Í raun má segja að þetta frumvarp sé margslungið en líka einfalt því þetta er frumvarp sem byggir á samkomulagi sem gert var á milli annars vegar ríkisins og hins vegar Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Það lýtur að því að ríkið kaupi hlut Reykjavíkurborgar annars vegar og Akureyrarbæjar hins vegar í Landsvirkjun. Um það fjallar þetta frumvarp og með frumvarpinu er verið að lögfesta það samkomulag, enda er samkomulagið með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Um þetta samkomulag hefur verið fjallað í 1. umr. og að sjálfsögðu ítarlega um það fjallað í nefndinni enda komu fjölmargir gestir á fund nefndarinnar og aðrir sem veittu skriflega umsögn. Um gesti þessa má lesa á þingskjali 553.

Til viðbótar við samninginn á milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins um kaup ríkisins á Landsvirkjun þá er að auki í frumvarpinu örlítil tilfærsla, ef svo má segja, þar sem eignarhaldið á Landsvirkjun er fært úr iðnaðarráðuneyti yfir í fjármálaráðuneyti. Það er í samræmi við frumvarp sem ég mun mæla fyrir nefndaráliti um, væntanlega í næsta dagskrárlið, og þar er greint annars vegar á milli stjórnsýsluábyrgðar og hlutverks iðnaðarráðuneytisins gagnvart orkufyrirtækjum og hins vegar eignarhaldinu á þeim. Það er talin eðlileg og réttari stjórnsýsla að greina þar á milli þannig að eignarhaldið sé í einu ráðuneyti en stjórnsýsluhlutverkið sé í öðru ráðuneyti. Um það fjallar sem sagt hin breytingin í þessu frumvarpi.

Í raun þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta. Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og undir það rita allir nefndarmenn, þó tveir þeirra, þeir hv. þm. Ellert B. Schram og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, með fyrirvara.

Að svo mæltu vil ég segja að meiri hlutinn leggur til að frumvarp þetta verði samþykkt óbreytt, hæstv. forseti.