133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[17:04]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Örstutt varðandi þann fyrirvara sem hv. þingmaður nefndi. Hann vitnaði til 5. gr. samningsins sem frumvarpið byggði á, þ.e. ekki hluta af frumvarpinu. Eins og hv. þingmaður man þá kom fram innan nefndarinnar að það var að beiðni sveitarfélaganna, Reykjavíkurborgar að þetta ákvæði var sett inn ef til þess kæmi á næstu árum að Landsvirkjun yrði seld og verðmætin reyndust hugsanlega meiri. Þetta er sá varnagli.

Hins vegar er líka rétt að draga fram, hæstv. forseti, að það kom jafnframt skýrt fram hjá hæstv. iðnaðarráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu að engin áform væru á sjóndeildarhringnum um sölu Landsvirkjunar af hálfu ríkisvaldsins, sem eignast Landsvirkjun að öllu leyti með þessu frumvarpi. Ég tel mikilvægt að það komi fram að sá hæstv. ráðherra sem fer með þennan málaflokk og ber ábyrgð á frumvarpinu gagnvart þinginu lýsir því yfir í framsöguræðu sinni að engin áform séu um að selja Landsvirkjun.