133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[17:46]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um breytingar á lögum á orkusviði.

Frumvarpið sjálft nær í rauninni til þriggja þátta sem sumir hverjir hafa orðið að umræðuefni í fyrri frumvörpum um orkumál í dag. Í fyrsta lagi er um að ræða flutning á eignarhlut ríkisins í orkufyrirtækjum frá iðnaðarráðuneyti yfir til fjármálaráðherra. Ástæðan er eins og hefur verið rakið fyrr í dag að það er talin skynsamlegri og eðlilegri stjórnsýsla að eignarhaldið sé í einu ráðuneyti en hin faglega og daglega stjórnsýsla í fagráðuneyti. Það er hugsunin á bak við þann þátt frumvarpsins.

Í öðru lagi er samkvæmt frumvarpinu lagt til að allur eignarhlutur ríkisins í Rarik og Orkubúi Vestfjarða hf. verði færður inn í Landsvirkjun og í þriðja lagi er kveðið á um ákveðnar skattaréttarlegar skyldur gagnvart Rarik þar sem skerpt er á þessum skattalegu skyldum. Þær skattalegu skyldur sem þar er um að ræða eru skyldur sem talið var að fylgdu Rarik þegar því var breytt yfir í hlutafélag en samkvæmt umsögn ríkisskattstjóra eru einhverjar efasemdir um að núverandi ákvæði haldi og þess vegna er einfaldlega verið að skerpa á þessum skattalegu skyldum Rariks.

Eftir mjög ítarlega umfjöllun í hv. iðnaðarnefnd þangað sem komu margir gestir og skriflegar umsagnir eins og rekja má á þskj. 586 varð það niðurstaða nefndarinnar að gera breytingar, e.t.v. nokkuð róttækar, á þessu frumvarpi. Það kom m.a. fram hjá fulltrúum Samkeppniseftirlitsins að frumvarpið að óbreyttu gæti skekkt samkeppnisstöðu og var þar átt við ef Rarik og Orkubú Vestfjarða yrðu lögð inn í Landsvirkjun. Í samráði við ráðuneytið velti nefndin upp möguleikum á að leysa þennan þátt þannig að lögin og þessi samruni mundu standast samkeppnislög.

Við nánari athugun varð það niðurstaða nefndarmanna að láta þennan þátt bíða, skoða hann nánar, enda eru m.a. kærumál í gangi hjá Samkeppnisstofnun sem snerta einmitt þennan nýja orkumarkað sem er verið að þróa og er í rauninni í fæðingu, og ekki síst á þeim grundvelli varð það niðurstaða nefndarmanna að láta þennan þátt bíða. Nefndin gerir þess vegna breytingartillögu sem er kynnt á þskj. 587. Það þýðir því, hæstv. forseti, að eins og nefndarálitið kemur frá nefndinni með breytingartillögum er mælt með því að þessi tilflutningur á eignarhaldi frá iðnaðarráðuneyti yfir í fjármálaráðuneyti verði samþykktur. Jafnframt er mælt með að þessar skattalegu skerpingar gagnvart Rarik verði samþykktar en við gerum þá breytingartillögu að samruni Orkubúsins og Rariks verði látinn liggja ef þannig má að orði kveða og þar með er í rauninni allt óbreytt hjá Orkubúi Vestfjarða og Rarik að öðru leyti en því að eignarhaldið er fært yfir til fjármálaráðuneytisins.

Undir nefndarálitið skrifa allir viðstaddir hv. nefndarmenn sem og áheyrnarfulltrúi sem er samþykkur áliti þessu en þó með fyrirvara.