133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[18:20]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að þetta sé réttmæt ábending hjá hv. þingmanni, a.m.k. tek ég eftir því í samningnum um kaup ríkisins á hlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun að beinlínis er gert ráð fyrir því að Landsvirkjun verði hlutafélag og nýir aðilar komi inn í Landsvirkjun með kaupum á hlutafé. Sérstaklega eru tilgreindir lífeyrissjóðirnir.

Þannig að ég er í engum vafa um að það eru áformin, að einkavæða Landsvirkjun a.m.k. að einhverju leyti. Ég held að það sé eiginlega augljóst mál hvaða stefna er uppi í þeim efnum og fari ekki á milli mála.

Hitt held ég líka að sé mál sem við þurfum að átta okkur betur á og er að þróast kannski miklu hraðar en ég hafði a.m.k. gert mér grein fyrir og það er að réttindin sem undir liggja í málinu, að verðmætin eru að færast meira yfir á réttindin sjálf. Þannig að þróunin er að verða í svipaða átt og hefur gerst í sjávarútveginum, að stærri hluti af heildartekjum sjávarútvegsins er tekinn út í gegnum réttindin sjálf. Ekki það að afla fisksins eða vinna hann eða selja, heldur í gegnum afnot af réttindunum.

Við sjáum það af samningi Seyðisfjarðarkaupstaðar um virkjun Fjarðarár, að þar er gert ráð fyrir því að eigandi vatnsréttindanna fái um 7,5% af brúttótekjum virkjunarinnar í sinn hlut. Þess vegna er ekkert út í hött að segja að svipað muni gerast í stærri aflvirkjunum, eins og ætti að vera við Kárahnjúkavirkjun og síðari virkjanir sem koma munu, menn þurfa að gera ráð fyrir því að eigandi vatnsréttindanna taki kannski 10–15% af brúttótekjum virkjunarinnar (Forseti hringir.) í afgjald fyrir notkunina á réttindunum.