133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[18:40]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um að ríkið eignist hluti Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Þetta er fyrsta skrefið í að einkavæða Landsvirkjun. Það hefur komið berlega fram, bæði af hálfu forustumanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hver einbeittur vilji þeirra er í þeim efnum.

Við þekkjum þennan feril. Við þekkjum feril Símans þegar hann var fyrst færður úr almannaeignarfyrirtæki yfir í hlutafélag og síðan seldur þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. (Gripið fram í: Vilji er nú allt sem þarf …) Mér sýnist nú viljaleysið vera mest, sérstaklega hjá Framsóknarflokknum og dugleysið að leggjast svo flatur fyrir einkavæðingarkröfu íhaldsins eins og raun ber vitni. Ég segi því nei.